Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Ásýnd Orkuveituhússins gjörbreytist

Ásýnd Orkuveituhússins gjörbreytist

135
0
Mynd: Ruv.is

Hús Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls hefur verið eitt af kennileitum borgarinnar frá því það var tekið í notkun árið 2003.

<>

Einkum er það hið bogalaga vesturhús sem hefur fangað augað þótt innviðirnir hafi ekki síður vakið athygli í gegnum tíðina, enda var ekkert til sparað við byggingu þess.

En þrátt fyrir allan tilkostnaðinn var bygging vesturhússins meingölluð. Útveggirnir voru myglaðir í gegn og árið 2017 var húsinu lokað.

Eftir margar úttektir og skýrslur, þar sem því var velt upp hvort rífa ætti húsið eða byggja glerhjúp utan um það, var niðurstaðan sú að ráðast í viðgerðir.

„Þannig að framkvæmdin sem við erum í núna snýst um að skipta um útveggi á húsinu, setja nýja vatnshelda og áreiðanlega útveggi,“ segir Grettir Haraldsson sem er verkefnisstjóri verkefninu.

Rétta húsið af
Verktakinn, Ístak, vinnur nú að því og er húsið farið að láta á sjá og nánast búið að hola vesturenda hússins að innan. Útveggirnir eru farnir og það eina sem stendur eftir er kápan. En hún fer fljótlega í byrjun næsta árs.

Breytingarnar verða einnig sjónrænar því húsið á eftir að taka stakkaskiptum. Ekki bara verður því hvítt eftir breytinguna heldur breytist lögun þess.

„Við ætlum að rétta það af. Núna halla þrír veggir hússins út frá fyrstu hæð, sem sagt suður- og norðurgaflinn og vesturhlutinn. Og við ætlum að rétta það af. Allir veggir verða lóðréttir,“ segir Grettir.

Húsið verður vatnshelt og gott
Hinir nýju útveggir eru smíðaðir í Litáen og verða fluttir hingað í einingum og festir við gólfplötuna. Byrjað verður á því í vor en áætluð verklok eru um mitt ár 2023.

Þá á eftir að innrétta, setja ný gólfefni, loft og lagnir. Standa vonir til að með því verði settur punktur aftan við sorgarsögu vesturhússins.

„Þetta hús hefur verið gallað frá upphafi, því miður. Það er álit fjölmargra sérfræðinga sem hefur sýnt okkur fram á það. Við ætlum að gera okkar besta.

Við erum að velja efni, veggi, sem hafa gefist vel við íslenskar aðstæður og við gerum miklar kröfur til þeirra. Þannig að það er okkar trú að þetta hús verði vatnshelt og gott og muni ekki mygla eftir að við erum búin að setja það upp.“

Heimild: Ruv.is