Home Fréttir Í fréttum Hótelbyggingu á Seyðisfirði slegið á frest

Hótelbyggingu á Seyðisfirði slegið á frest

102
0
Framkvæmdum vegna hótelsins Tinda á Seyðisfirði hefur verið slegið á frest. Oddviti Sjálfstæðismanna segir það bagalegt.

Uppbyggingu hótels á Seyðisfirði hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma. Aðalheiður Borgþórsdóttir, eigandi fyrirtækis utan um hótelreksturinn, segir aðgerðir stjórnvalda gera ferðaþjónustu erfitt fyrir fjarri höfuðborginni.

<>

Hótelið átti að skapa um 25 ársverk á Seyðisfirði. Til samanburðar myndi það þýða um 4.800 manna vinnustað í Reykjavík.

„Við ætluðum að fara af stað með uppbyggingu hótels á Seyðisfirði og höfum unnið í á þriðja ár að þessari framkvæmd. Allt hefur gengið samkvæmt áætlun í því ferli. Hins vegar er áætluð hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og sterkt gengi krónunnar að gera okkur lífið leitt. Það er bara þannig,“ segir Aðalheiður.

Fjárfestingin sem um ræðir er mjög viðamikil á Seyðisfirði. Framkvæmdin sjálf, bygging hótelsins, sem átti að vera rúmlega 40 herbergi, átti að kosta allt að 900 milljónir króna.
„Ferðaþjónusta á Austurlandi er í mjög erfiðri stöðu núna vegna erfiðrar stöðu krónunnar og svo bætist ofan á fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts á greinina sem að mínu mati gæti skaðað greinina,“ segir Aðalheiður.

Arnbjörg Sveinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seyðisfjarðar, er sammála því að hækkun virðisaukaskatts á greinina sé ekki æskileg. „Hækkunin mun hafa slæm áhrif úti á landi fyrir þá sem eru fjærst Keflavík,“ segir Arnbjörg. „Það er fyrirséð að ferðamenn sem hingað koma munu stytta dvöl sína með hækkandi verðlagi. Þetta hótel hefði verið mjög góður kostur fyrir okkur og vonandi að þetta geti farið af stað seinna þegar óvissuástandi, eins og þau upplifa það, lýkur.“

Á Seyðisfirði voru um áramótin 650 íbúar með lögheimili. Þar af voru tæplega 450 þeirra á vinnualdri.

Heimild: Visir.is