Home Fréttir Í fréttum Tilboð í fjölbýlishúsalóðir samþykkt í Hafnarfirði

Tilboð í fjölbýlishúsalóðir samþykkt í Hafnarfirði

312
0
Skarðshlíð Hafnarfirði

Tilboð bárust frá sjö aðilum þegar Hafnarfjarðarbær auglýsti sex fjölbýlishúsalóðir í Skarðshlíð í haust. Eftir að tilboðsfresti lauk hófst mat og rýni tilboða út frá skilgreindum skilmálum samhliða fundum með hæstbjóðendum. Bæjarráð samþykkti þann 3. nóvember sl. að taka annars vegar tilboðum frá Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf. um tvær lóðir og hins vegar frá VHE ehf. og Nesnúp ehf. um fjórar lóð.

<>

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í gær að úthluta Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf. tveimur lóðum og Nesnúpi ehf. fjórum lóðum.

Í byrjun september óskaði Hafnarfjarðarbær eftir tilboðum í sex fjölbýlishúsalóðir í 1. áfanga Skarðshlíðar.

Heildarsvæðið sem um ræðir er 30 hektarar upp við hlíðina sunnan og vestan í Ásfjalli. Tilboð í lóðirnar bárust frá sjö aðilum. Ákvörðun hefur verið tekin um að úthluta annars vegar Nesnúpi ehf. lóðunum Geislaskarði 2, Bergskarði 1, Apalskarði 2 og 6 og hins vegar Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf. lóðunum Stuðlaskarði 1 og 9.

Hæstu tilboð í lóðirnar sex bárust frá félögunum Nesnúpi ehf og VHE ehf. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 3. nóvember sl. að beita ákvæði í 7. gr. tilboðsskilmála um að úthluta ekki öllum lóðum til sama aðila. Nesnúpur ehf. og VHE ehf. eru að stærstum hluta í eigu sömu aðila.

Því var Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars hf., sem átti næstu tilboð í þær lóðir sem voru undanskildar, úthlutað þeim tveimur lóðum. Gera má ráð fyrir að framkvæmdir og uppbygging fjölbýlishúsa á þessum sex lóðum í Skarðshlíð hefjist á vormánuðum. Þar með hefur átta fjölbýlishúsalóðum í heild verið úthlutað í Skarðshlíð.

Þrastarverk ehf. fékk lóð úthlutað í september, að hluta í skiptum fyrir aðra lóð sem félagið átti á svæðinu. Almenna íbúðafélaginu hses. var svo úthlutað lóðinni Hraunskarð 2 á fundi bæjarstjórnar þann 12. október síðastliðinn og tengist sú úthlutun samstarfi Hafnarfjarðarbæjar og ASÍ um uppbyggingu 150 leiguíbúa í Hafnarfirði á næstu fjórum árum.  Svæði ofar í Skarðshlíðinni, ætlað einbýlis-, par- og raðhúsum, er í hönnunar- og skipulagsferli sem ráðgert er að ljúki í upphafi næsta árs.

Gera má ráð fyrir að þær lóðir verði auglýstar á vormánuðum 2017.