Home Fréttir Í fréttum Landsbankinn ætlar að selja meirihlutann af eign sinni í Reitum

Landsbankinn ætlar að selja meirihlutann af eign sinni í Reitum

58
0

Landsbankinn hefur ákveðið að selja tíu prósent hlut í fasteignafélaginu Reitum, en bankinn á alls um 18 prósent hlut í félaginu. Hluturinn verður seldur í gegnum markaðviðskipti bankans og lágmarksgengi í útboðinu verður 63 krónur. Reitir voru skráðir á aðalmarkað í lok síðustu viku í kjölfar þess að Arion banki seldi 13,25 prósent hlut í félaginu í gegnum útboð sem fyrirtækjaráðgjöf fjárfestingarbankasviðs Arion banka hafði umsjón með. Meðlagengi seldra hluta í því útboði var tæplega 63,9 krónur á hlut en eftirspurn eftir hlutafénu var fjörföld.

<>

Tilboðsfrestur í útboði á tíu prósent hlut Landsbankans rennur út klukkan 16 á miðvikudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum ( til kauphallarinnar sem birt var eftir lokun markaða í dag.

Skráð gengi á hlutum í Reitum í lok dags í dag var 63,5 krónur á hlut.

Eignarhaldið bundið tímatakmörkum
Eignarhald stóru viðskiptabankanna á hlutum í Reitum hefur verið nokkuð mikið til umræðu innan fjármálaheimsins að undanförnu.

Yfirlýst stefna allra viðskiptabankanna er enda að selja eignir í óskyldum rekstri sem fyrst. Í starfsreglum Eignabjargs, dótturfélags Arion banka sem heldur á hlut hans í Reitum, segir að félagið skuli „eftir fremsta megni haga því svo að eignahaldstími þess á fyrirtækjum í eigu félagsins vari í eins skamman tíma og hægt er“. Íslandsbanki hefur gefið það út opinberlega að hann leitist við að selja eignir í óskyldum rekstri enda sé „ekki stefna bankans að eiga slíkar eignir til lengri tíma“. Í útgefinni stefnu Landsbankans um sölu fullnustueigna segir að stefnt sé að því að selja þær „eins fljótt og unnt er að teknu tilliti til markaðsaðstæðna“.

Auk þess er eignarhald bankanna á Reitum skilyrt sátt sem þeir, og þrotabú Glitnis, gerðu við Samkeppniseftirlitið 30. apríl 2010. Samkvæmt henni veitti eftirlitið þeim tímafrest til að minnka eignarhald sitt í Reitum. Um þessa sátt, og hvernig henni hefur verið fylgt eftir, segir í skráningarlýsingu Reita hún hafi að stórum hluta gengið eftir með „þynningu við endurfjármögnun útgefanda í árslok 2014 og með sölu þeirra á hlutabréfum í kjölfar endurfjármögnunar. Því til viðbótar minnkar eignarhaldið í fyrirhuguðu útboði sem verðbréfalýsing þessi tekur til. Ekki liggja fyrir upplýsingar um frekari söluskyldu á hlutum í útgefanda. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort og þá hvenær eða með hvaða hætti seljandi í útboðinu eða aðrir í hópi stærstu hluthafa hans áformi að selja þá eignarhluti sem þeir munu eiga eftir að útboðinu lýkur.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, vildi ekki tjá sig um málið umfram það sem fram kom í skráningarlýsingunni þegar Kjarninn leitaði eftir því í lok mars. Þar segir að „tímatakmörk á sölu eignarhluta í útgefanda [Reitum] sem Samkeppniseftirlitið hefur veitt aðilum að sátt[…] yrði framlengd til 31. maí 2015“. Páll Gunnar vildi ekki tjá sig um hvort einhver viðbótar söluskylda hvíldi á viðskiptabönkunum þremur fram að þeim tímatakmörkunum.

Vildu ekki tjá sig um áformin
Í ljósi þeirra svara beindi Kjarninn fyrirspurn til Landsbankans þar sem hann var spurður af því hvað hafi valdið að hann hafi ekki selt hluti í útboðinu sem ráðist var í fyrir skráningu Reita á markað.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði þá að bankinn myndi vinna í samræmi við þá sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið á árinu 2010 vegna eignarhaldsins á Reitum, en gildandi tímafrestur vegna hennar rennur út 31. maí næstkomandi. Að öðru leyti vildi bankinn ekki tjá sig um áform sín á markaði „enda væru það upplýsingar sem alltaf myndu teljast verðmótandi“. Nú hefur hann hins vegar tilkynnt um að meirihluti af eignarhlut bankans sé til sölu.

Risastórt fasteignafélag
Eignasafn Reita saman stendur af mörgum af verðmætustu fasteignum landsins. Mikilvægasta einstaka eign félagsins er Kringlan en félagið á einnig margar verðmætar eignir miðsvæðis í Reykjavík. Félagið á stórt eignasafn í verslunarhúsnæði til viðbótar við Kringluna, t.d. Holtagarða, Spöngina, Mjóddina og Eiðistorg. Þá á félagið t.a.m. tvær stórar Icelandair hóteleignir; Hilton Reykjavík hótel og Icelandair Natura.

Heimild: Kjarninn.is