Home Fréttir Í fréttum Afgreiðslutími þinglýsinga verður ekki eðlilegur fyrr en nokkrum vikum eftir að verkfalli...

Afgreiðslutími þinglýsinga verður ekki eðlilegur fyrr en nokkrum vikum eftir að verkfalli lýkur

134
0
Sýslumaðurinn í Reykjavík
Afgreiðslutími þinglýsinga verður ekki eðlilegur fyrr en nokkrum vikum eftir að verkfalli lýkur, segir sýslumaðurinn í Reykjavík. Áhrif þess eru afar víðtæk, meðal annars á fasteignaviðskipti, lán, nauðungarsölur, skipti dánarbúa og ættleiðingar.

 

<>

Lögfræðingar hjá sýslumannsembættunum hafa verið í verkfalli í tæpa viku. Tæplega þrjátíu þeirra starfa hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og verkfallsverðir sjá til þess að engin verkfallsbrot fari fram.

Engu er þinglýst á þeim tíma þó tekið sé á móti skjölum til þinglýsingar. Þau skjöl hlaðast hins vegar upp.

 

„Uppsafnaður skjalafjöldi núna þessa daga sem verkfall hefur staðið er nálægt 1.500 skjölum, sem bíða þá þinglýsingar,“ segir Þórólfur Halldórsson,sýslumaður í Reykjavík .

Það er tómlegt um að litast á sumum deildum sýslumannsins. herbergi sem er meðal annars notað við hjónavígslur hefur ekki verið notað í verkfallinu. Áhrifanna gætir víða. Hvorki er hægt að þinglýsa kaupsamningum fasteigna né lánasamningum. Nauðungarsölur, sem auglýstar eru nánast daglega falla líka niður.

„En við getum ekki sagt fólki hvenær megi vænta þess að málin verði tekin fyrir á ný. Þannig að það er allavega óvissa sem þessu fylgir sem kemur illa við fólk,“ segir Þórólfur. Þetta hefur líka áhrif á erfiðari mál. „Hjúskaparmál, það eru hjónaskilnaðir, sambúðarslit, forræðismál og meðlagsmál og þar fram eftir götunum. Síðan eru náttúrulega skipti á dánarbúum, svo dæmi sé tekið, sem ekki fara fram.“

Í þessum málum koma margir við sögu og málin oft erfið. Þórólfur segir að þetta geti tafið fyrir þinglýsingum í nokkurn tíma eftir verkfallið. „Þetta mun hafa þær afleiðingar að það verða einhverjar vikur sem líða þangað til hægt verður að vera með eðlilegan tíma á afhendingu skjala um þinglýsingu.“

Samningafundur fór fram í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag. Ekkert þokaðist í samkomulagsátt en annar samningafundur var boðaður á fimmtudaginn.

Heimild: Rúv.is