Home Fréttir Í fréttum Vöknuðu upp við vondan draum – Vissu ekki að nýtt fjölbýlishús ætti...

Vöknuðu upp við vondan draum – Vissu ekki að nýtt fjölbýlishús ætti að vera svona nálægt

30
0
Til vinstri má sjá Jöfursbás 9a og til hægri Jöfursbás 11b. Nýja húsið, Jöfursbás 9c, á að vera fyrir aftan fyrrnefnda húsið. Mynd: Skjáskot-Já.is.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru húsfélagsins í fjölbýlishúsi að Jöfursbási 11 í Reykjavík vegna samþykktar borgarráðs árið 2019 á nýju deiliskipulagi fyrir Gufunes en umrædd gata er þar. Kærði húsfélagið einnig leyfi sem byggingarfulltrúi veitti árið 2023 til að byggja nýtt fjölbýlishús að Jöfursbási 9c.

Segir húsfélagið að íbúar hússins, númer 11, hafi ekki vitað hversu nálægt þeirra húsi nýja húsið ætti að vera en aðeins verði um 10-12 metra bil á milli húsanna. Vill húsfélagið sömuleiðis meina að íbúar hafi ekki áttað sig á því að húsið ætti að vera svona stórt og þar með svipta þá dagsbirtu.

Miðað við kort af svæðinu er Jöfursbási 11 skipt upp í nokkra hluta sem einkenndir eru með bókstöfum. Sá hluti sem á að vera næst nýja húsinu að númer 9c er Jöfursbás 11b. Erfitt er í fljótu bragði að átta sig á nákvæmri lengd milli húsanna af þeim uppdráttum deiliskipulags svæðisins sem aðgengilegir eru í skipulagsvefsjá. Lengdin virðist þó ekki vera mikil og á myndum af svæðinu að dæma er þar þétt byggt.

Á myndinni hér að ofan sem er frá Já.is má sjá hús númer 9a til vinstri og hús númer 11b til hægri en nýja húsið á að vera fyrir aftan það fyrrnefnda.

Áttuðu sig ekki á því

Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála kemur fram að 2019 hafi borgarráð samþykkt nýtt deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga Gufuness. Það hafi síðan tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Gerðar hafi verið tvær breytingar á deiliskipulagi fyrir lóð númer 9 við Jöfursbás sem tóku gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda í ágúst 2021 og október 2022. Umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús að Jöfursbási 9c hafi síðan verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. nóvember 2023.

Í kæru húsfélagsins að Jöfursbási 11 kom hins vegar fram, samkvæmt úrskurðinum, að hið fyrirhugaða hús ætti að vera fimm hæða og einungis í 10 til 12 metra fjarlægð frá næsta hluta Jöfursbáss 11. Nokkrir íbúar hafi verið meðvitaðir um að frekari framkvæmdir væru fyrirhugaðar en hafi ekki gert sér grein fyrir því að ráðgert væri að svipta þá svo mikilli dagsbirtu.

Þrátt fyrir að sex ár væru frá því að deiliskipulag hafi verið samþykkt og að byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir rúmlega einu og hálfu ári hafi framkvæmdir ekki hafist fyrr en í mars 2025. Þess ber að geta að í fundargerð umrædds afgreiðslufundar byggingarfulltrúa í nóvember 2023 kemur fram að húsið að Jöfursbási 9c eigi að vera þriggja hæða.

Segir enn fremur um kæru húsfélagsins að íbúum hafi ekki verið kunnugt um þessar ráðagerðir fyrr en þá og þeir hafi ekki áttað sig á því hversu mikið nýbyggingin kæmi til með að skerða rétt þeirra. Það verði að játa þeim nokkuð svigrúm til að átta sig á aðstæðum og taka ákvörðun um næstu skref. Telja yrði afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.

Hafi mátt vita

Reykjavíkurborg vísaði í sínum andsvörum til til þess að ekkert hefði komið fram sem benti til þess að útgefið byggingarleyfi væri ekki í samræmi við gildandi skipulag. Þá væri kærufrestur liðinn.

Í athugasemdum framkvæmdaraðila var vísað til þess að kærufrestur væri liðinn. Framkvæmdir við Jöfursbás 9c væru hálfnaðar og í samræmi við upphaflegt deiliskipulag frá árinu 2019. Fyrstu íbúar að Jöfursbási 11 hafi flutt inn árið 2022, þremur árum eftir að deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt og auglýst. Þáverandi og núverandi eigendur hússins hafi mátt þekkja skipulag svæðisins og hvar stæði til að reisa fjölbýlishús í nágrenninu. Ekkert hafi breyst frá þeim tíma.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að þar sem nýjustu breytingar á deiliskipulagi fyrir Jöfursbás 9 hafi tekið gildi og verið auglýstar 2022 sé kærufrestur vegna breytinganna löngu liðinn.

Hvað varði kæru á byggingarleyfi vegna Jöfursbáss 9c þá komi fram í kæru húsfélagsins að íbúum hafi verið kunnugt um framkvæmdir á lóðinni í mars 2025 og verði að telja að þá hafi þeim verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Samkvæmt lögum um nefndina sé kærufrestur einn mánuður frá því að viðkomandi varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Þar sem kæran hafi borist í júlí 2025 sé ljóst að kærufrestur sé liðinn. Kæru húsfélagsins er því vísað frá og einnig á þeim grundvelli að ekki séu fyrir hendi nægilega veigamiklar ástæður til að taka kæruna samt til meðferðar eins og heimilt er í slíkum tilvikum.

Heimild: Dv.is