Home Fréttir Í fréttum Erfitt mál fyrir Kópavogsbæ – „Húsið hefur verið hlutað niður í að...

Erfitt mál fyrir Kópavogsbæ – „Húsið hefur verið hlutað niður í að lágmarki þrjár íbúðir“

56
0
Nágrannarnir eru algerlega mótfallnir stækkun. DV/KSJ

Kópavogsbær er í vanda vegna húsnæðis á Kársnesi sem gerðar hafa verið breytingar á án leyfis bæjarins. Húsið er skráð sem einbýlishús en 14 manns eru nú skráð með lögheimili þar og nágrannar eru mjög ósáttir. Eigandi hússins vann mál gegn bænum fyrir úrskurðarnefnd um að fá að stækka húsið en bærinn frestar samt sífellt afgreiðslu málsins.

<>

Málið snýst um hús sem stendur við Melgerði 11 og hefur verið á borði bæjaryfirvalda síðan árið 2018. Á mánudag var það enn einu sinni tekið fyrir á fundi skipulagsráðs og afgreiðslu þess enn og aftur frestað.

Minnihlutinn kallar eftir upplýsingum um hvað byggingarfulltrúi hafi gert í málinu. Fyrir liggi að hann hafi ekki kannað breytta nýtingu hússins.

„Það er mál sem byggingarfulltrúi ætti að vera að beita sér í,“ segir Theódóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Viðreisnar sem lagði fram bókun í málinu ásamt fulltrúum Pírata, Samfylkingar og Vina Kópavogs. „Þetta er mál sem varðar eldvarnir og við höfum auðvitað áhyggjur af því.“

Theódóra S. Þorsteinsdóttir vill að málið verði kannað. Mynd/Viðreisn

Að sögn Theódóru er málið í raun tvískipt. Annars vegar sé um að ræða óleyfilegar framkvæmdir og notkun á húsinu og hins vegar skipulag. Það er beiðni eigandans um að fá að byggja viðbyggingu og bæta við íbúð með sérstöku fasteignanúmeri og bæta við bílastæði.

Margar tillögur
Í umsögn Skipulagsdeildar Kópavogsbæjar frá því í janúar á þessu ári er gert grein fyrir málinu og þeim umsögnum sem hafa borist, frá nágrönnum í Melgerði 9 og 13.

Melgerði 11 er tveggja hæða einbýlishús, byggt árið 1954. Það er 160 fermetrar að stærð að viðbættum rúmlega 40 fermetra bílskúr.

Árið 2018 var sótt um að fá að byggja 150 fermetra viðbyggingu við vesturhlið hússins og fyrirhugað að hafa tvær íbúðir í henni, á sitt hvorri hæðinni. Einnig fjölga bílastæðum úr einu í sex. Því var hafnað og síðan hafa nokkrar tillögur að viðbyggingu verið lagðar fram, með ýmsum útfærslum, sú nýjasta árið 2023.

Nágrannar mótmæla hátt
Athugasemdir bárust frá nágrönnum þar sem viðbyggingunni var mótmælt. „Þetta er einfaldlega ekki stækkun á einbýlishúsi sem væri allt annað mál. Þetta er viðbót við óskráð fjölbýli,“ segir í umsögn íbúa við Melgerði 13.

„Húsið hefur verið hlutað niður í að lágmarki þrjár íbúðir. Líklega fjórar með tilheyrandi íbúafjölda sem nokkur velta er á milli ára, talsverður fjöldi sem hefst þarna við en erfitt er að gera sér nákvæmlega grein fyrir því þar sem umgangur er mikill.“

Á þessum tíma bjuggu 17 manns í húsinu en eigandi hússins var ekki á meðal þeirra. Vildu nágrannarnir að úttektaraðilar mættu á staðinn til þess að skoða breytingarnar að innan. Mikill umgangur sé við húsið og bifreiðar sem tilheyra húsinu séu að jafnaði 5 en stundum 6 sem fylli götustæðin fyrir framan.

Þá var einnig sagt að viðbyggingin myndi breyta útsýninu og yfirbragðinu í hverfinu.

14 manns eru með lögheimili skráð í húsinu. Í fyrra voru það 17. DV/KSJ

Íbúar í Melgerði 9 mótmæltu einnig viðbyggingunni. Lögmaður þeirra sagði í umsögn að bílskúrnum hefði þegar verið breytt í íbúð og húsinu hefði verið skipt upp í tvær eða fleiri íbúðir.

„Umrætt hús, sem sagt er einbýlishús, er því í raun þegar orðið fjölbýlishús án þeirrar breytingar sem nú eru kynntar,“ segir í umsögninni. „Komi í ljós að húsinu hafi þegar verið breytt úr einbýlishúsi í fjölbýlishús þarf, áður en frekari breytingar eru gerðar, að gera eigenda þess að koma húsinu í samt lag eða sækja ella um þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar á húsinu.“

Óttist fólkið að viðbyggingunni fylgi meira rask og fleiri bílar. Einnig að í henni verði ekki gerð aðeins ein íbúð heldur fleiri.

Skipulagsdeild taldi stækkunina falla að stefnu um þéttingu byggðar, þar sem segir meðal annars að þétta megi með viðbyggingum á grónum svæðum.

Hins vegar var nýtingarhlutfall lóðarinnar talið hátt, það er yrði 0,42 þar sem viðmiðunin á einbýlishúsalóð sé 0,2 til 0,35. Skipulagsráð og bæjarstjórn höfnuðu beiðninni í ársbyrjun árið 2024 á þessum grundvelli.

Eigendur höfðu betur
Eigendur Melgerðis 11 kærðu ákvörðun bæjarins til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála sem úrskurðaði í málinu 16. maí síðastliðinn. Var ákvörðunin felld úr gildi.

Í úrskurðinum var bent á að í Melgerði væri að finna lóðir með mjög mismunandi nýtingarhlutfall. Einnig væri þar að finna nokkuð af húsum með tveimur eða þremur íbúðum. Ekki var talið að útsýnið myndi skerðast verulega fyrir nágranna.

Skoðun nauðsynleg áður en leyfi sé veitt
Þrátt fyrir þennan úrskurð hefur bærinn frestað ákvörðun um að veita leyfi. En fyrir utan fundinn í vikunni var það tekið fyrir á fundum skipulagsráðs 1. júlí og 19. ágúst.

Í bókun minnihlutans segir að komið hafi fram að húsið hafi verið hólfað niður í fleiri íbúðir án samþykkis byggingarfulltrúa. Breytt notkun án slíks samþykkis stríði gegn mannvirkjalögum.

„Undirrituð telja nauðsynlegt að þetta verði skoðað áður en veittar verða heimildir til frekari byggingarframkvæmda á lóðinni,“ segir í bókuninni.

„Það hefur efnislega þýðingu í málinu út frá skipulagslegum sjónarmiðum t.d. varðandi íbúðafjölda, íbúafjölda og önnur grenndaráhrif. Það er skylda skipulagsráðs að gæta allra skipulagslegra sjónarmiða og almannahagsmuna áður en veitt eru byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum lóðum.“

Heimild: Dv.is