
Hugmynd að stórhýsi á baklóð við Glerárgötu 36 á Akureyri var kynnt fyrir skipulagsráði Akureyrarbæjar nýverið. Það gerði fulltrúi frá Fjárfestingafélaginu Klöppum sem er í eigu KEA, en annað dótturfélag, Skálabrún sem hefur verkefni og fjárfestingar á þessu sviði á sínu borði myndi sjá um málið.
Næstu skref í málinu að lokinni kynningu er að fá fram afstöðu skipulagsráðs.
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi segir að ráðið hafi enn ekki tekið afstöðu til hugmyndarinnar. Fram kemur í kynningu félagsins að skortur sé á frambærilegu skrifstofuhúsnæði með góðu aðgengi að nægum bílastæðum utan miðbæjarins.
Mikil ásókn fyrirtækja og stofnana sé í húsið við Glerárgötu 36, m.a. frá fyrirtækjum sem vilja flytja sig til innabæjar, stækka við sig eða koma sér fyrir á betri stað. Vill Skálabrún skoða betri nýtingu á lóðinni með því að byggja á henni. Stórt bílastæði er við austurenda lóðarinnar.

Hver hæð um 250 til 350 fm
Hugmyndin gengur út á að byggja níu hæða skrifstofubyggingu þar sem hver hæð gæti verð á bilinu 250 til 350 fermetrar að stærð.
Byggingin yrði reist á súlum sem gerir að verkum að færri bílastæði tapast.
Einnig yrði gerður bílastæðakjallari undir núverandi bílastæði og bílastæði yrðu einnig byggð ofan í súlunum.
Hvað varðar útlit er vísað til þess að það yrði sambærilegt og Höfðatorg í Reykjavík og Deloitte byggingin við Smáratorg í Kópavogi.
Heimild: Vikubladid.is