Home Fréttir Í fréttum Siglufjörður: Skóla breytt í nýtísku íbúðarhús

Siglufjörður: Skóla breytt í nýtísku íbúðarhús

262
0
Mynd: ELin. ARC/ Elín Þorsteinsdóttir arkitekt

Þröstur Þórhallsson, fasteignasali og stórmeistari í skák, festi sumarið 2015 kaup á gagnfræðaskólahúsinu að Hlíðarvegi 18-20 á Siglufirði og hefur síðan verið unnið að því að breyta því í íbúðarhúsnæði. Er verkið langt komið og stefnt að því að auglýsa íbúðirnar til sölu í næsta mánuði. Húsið, sem var teiknað hjá Húsameistara ríkisins undir umsjón Guðjóns Samúelssonar, var formlega tekið í notkun 6. október 1957.

<>

Elín Þorsteinsdóttir innanhúsarkitekt, fyrrum nemandi skólans, hefur teiknað upp hið nýja húsnæði.

„Já, þetta eru 13 íbúðir og þar fyrir utan tvær í risinu, penthouse-íbúðir sem möguleiki er að gera að einni; þær eru samtals 400 fermetrar, hluti þar er undir 180 cm en tæpir 200 fermetrar eru yfir 180 cm, þ.e.a.s. löglegri lofthæð,“ sagði Þröstur, þegar fréttaritari leit til hans á dögunum. Þröstur á ættir sínar að rekja til Siglufjarðar. Faðir hans, Þórhallur Sveinsson byggingarmeistari, er fæddur þar og uppalinn og Þröstur og systkin hans og foreldrar voru þar oft á sumrin. Þórhallur og Sveinn Þór, bróðir Þrastar, hafa unnið að breytingunum ásamt fleirum.

Fjölskylduverkefni

„Fjallabyggð auglýsti húsið til sölu og mér fannst einhvern veginn vera þarna tækifæri til að bjóða íbúum Fjallabyggðar upp á áhugaverðan valkost í íbúðamálum,“ sagði Þröstur, þegar hann var spurður um aðdragandann að kaupunum. „Ég átti hugmyndina að þessu, færði þetta í tal við pabba og honum leist vel á þetta og það var einfaldlega ákveðið að láta slag standa. Þetta er fjölskylduverkefni, við fórum í þetta til að heiðra minningu ömmu og afa, Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur og Sveins Jóhannessonar sem bjuggu á Siglufirði alla sína tíð og hvíla núna í kirkjugarðinum. Ég var skírður í Siglufjarðarkirkju um páskana 1969 og á héðan góðar minningar sem gerði það að verkum að ákvörðunartakan var ekki erfið,“ sagði Þröstur.

„Varðandi þær breytingar sem verið er að gera á húsinu þá eru allar lagnir nýjar, raflagnakerfið var endurhannað sem og pípulagnakerfið. Einnig verða nýir ofnar í öllu húsinu og allt nýmálað, að utan sem innan. Skipulagi hússins að innan þurfti að sjálfsögðu að breyta og við skiptum um allar rúður í húsinu ásamt öllum opnanlegum fögum. Og allir hurðir verða nýjar. Við flotuðum flest gólf og það fóru 20 tonn af floti í það verkefni. Það sem gerir þetta líka dálítið öðruvísi er að það eru engar tvær íbúðir eins. Þetta eru ekki kassalagaðar íbúðir eins og gjarnan má sjá nú til dags, heldur afar mismunandi að lögun og stærð, til að henta sem flestum. Svo hefur verið bætt við svölum við íbúðirnar, með útsýni yfir Siglufjörð. Það er óviðjafnanlegt útsýni úr húsinu bæði út fjörðinn og upp í skíðasvæðið enda stendur húsið hátt. Húsið er ekki fullmálað að utan en lokafrágangur á lóð og málun mun fara fram á vordögum.“

Bæjaryfirvöld jákvæð

Bæjaryfirvöld hafa tekið verkefninu vel og greitt götu málsins frá upphafi.

„Menn þar voru hrifnir af hugmyndinni, að breyta þessu í íbúðir, það var kannski vegna þess að það vantaði íbúðir á Siglufirði og menn sáu að þarna væri athyglisverður möguleiki. Kannski má segja að þetta sé brautryðjendastarf, að breyta skóla í íbúðir, ég veit ekki til þess að það hafi verið gert áður á Íslandi.

Það sem líka er merkilegt við þetta og raunar einstætt er lofthæðin í húsinu, hún er frá 3 metrum og upp í 3,75. Það eru tvær New York íbúðir, eins og við köllum þær, sem eru með lofthæð upp á 3,75. Það helgast af því að það var þarna samkomusalur á sínum tíma, einhver sagði mér að það hefði verið leikfimisalur og skólaböll haldin þar. Og það sem líka er dálítið öðruvísi en í öðrum fjölbýlishúsum er að sameignin er mjög rúm. Þar er möguleiki, eins og t.d. í anddyrinu, að vera með sófa og borð og hugsanlega bókahillur ef menn vilja setjast niður um helgar og kíkja í bók, spila eða drekka kaffi saman.“

Tækifæri fyrir eldri borgara  

„Þá er lyfta í húsinu. Það skiptir verulegu máli fyrir fólk að hafa lyftu og gerir það að verkum að þetta er kjörið tækifæri fyrir eldri borgara að komast í svona lyftuhús á Siglufirði, losa sig við óhentug hús og viðhald í garði. Þetta er í raun og veru aukin lífsgæði fyrir fólk á þessum aldri, sem er í boði hér, einstakt tækifæri vil ég meina, fyrir þá sem hafa ekki getað hreyft sig í mörg, mörg ár, einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið neinn alvöru valkostur í húsnæðismálum. Þess vegna er ég m.a. að horfa til þessa markhóps. Einnig er þetta tækifæri fyrir brottflutta Siglfirðinga að koma heim og eignast hérna flotta íbúð án þess að þurfa að hugsa um viðhald og garð. Það getur líka vel verið að starfsmannafélög og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu vilji eignast góða íbúð í nyrsta og einum fallegasta kaupstað landsins. Ég er allavega búinn að fá símtal frá einu slíku og þar heyrði ég að golfvöllurinn og skíðasvæðið hafa mikið aðdráttarafl. Staðsetning hússins í bænum er frábær enda bara 4-5 mínútna gangur niður í miðbæ þar sem eru meðal annars nokkrir veitingastaðir og bakarí svo fátt eitt sé nefnt. Þú þarft í raun ekki að hreyfa bíl nema þú ætlir á golfvöllinn eða skíðasvæðið. Stærð íbúðanna er frá 55 fermetrum og upp í 140 fermetra en flestar eru 3ja herbergja á bilinu 85-110 fermetrar.“

Heimild: Sigfirðingur.is