Home Fréttir Í fréttum Útboð borgarinnar á hjólastíg við Grensásveg dregið til baka

Útboð borgarinnar á hjólastíg við Grensásveg dregið til baka

77
0

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur dregið til baka útboð vegna þrengingar Grensásvegs sem auglýst var um helgina. Líkt og greint var frá í dag, var útboðið auglýst án þess að samþykki borgarstjórnar lægi fyrir.

<>

„Útboðið var samþykkt í borgarráði en átti eftir að fara til umræðu í borgarstjórn. Útboðinu er því frestað og er beðist velvirðingar á þessu,“ segir í tilkynningu frá umhverfis- og skipulagssviði. „Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.“

Verkið sem bjóða átti út felst í því að fækka akreinum á Grensásvegi milli Miklubrautar og Bústaðavegs og koma þar fyrir hjólastíg.

Niðurstaðan í kvöld að öllum líkindum sú sama
Á fundi borgarráðs þann 21. janúar var lagt fram bréf frá umhverfis- og skipulagsráði þar sem óskað var heimildar til að bjóða verkið út. Borgarráð samþykkti heimild til þess með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans.

Þar sem ekki náðist samstaða um málið í borgarráði verður það tekið fyrir á fundi borgarstjórnar í kvöld. Þar mun niðurstaðan að öllum líkindum vera sú sama og í borgarráði.

Í frétt Vísis um útboðið frá því í morgun sagðist Halldór Halldórsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni, furða sig á því að það hafi verið auglýst áður en samþykki borgarstjórnar fyrir því hafi fengist.

Heimild: Vísir.is