
Bæjarstjórn Árborgar mótmælir því að þungaflutningar vegna fyrirhugaðrar efnistöku á Búfellshólum austan Búrfells fari í gegnum þéttbýlið á Selfossi.
Þetta kemur fram í umsögn sem bæjarstjórn skilaði inn í tengslum við aðalskipulagsbreytingu Skeiða- og Gnúpverjahrepps, er varðar nýtt efnistökusvæði.
Áætluð efnistaka á svæðinu er allt að 4,5 milljón m3 og þá er gert ráð fyrir að efnisnám nemi um 80.000 til 300.000 m3 á ári í tíu til fimmtán ár. Um er að ræða vikurnámu og verður vikurinn einkum unninn til útflutnings.
Fram kemur í umsögninni að gert sé ráð fyrir að flutningabílar keyri frá námunni á Þjórsárdalsvegi (32) og Skeiða-og Hrunamannavegi (30) niður á Hringveg (1). Þaðan keyri þeir í gegnum Selfoss og niður til Þorlákshafnar á Eyrarbakkavegi (34) og Þorlákshafnarvegi (38), meðfram sjónum á Suðurstrandarvegi (427) og loks að námunni á Krýsuvíkurvegi (42).
„Sveitarfélagið Árborg leggur ríka áherslu á að þungaflutningar frá efnissvæðinu fari ekki í gegnum þéttbýlið á Selfossi. Austurvegur, Eyravegur og aðrir innanbæjarvegir á Selfossi eru ekki hannaðir né ætlaðir fyrir slíka umferð og myndi slíkt hafa veruleg neikvæð áhrif á umferðaröryggi, loftgæði, hávaða og lífsgæði íbúa, þar sem um er að ræða vegi sem fara þvert í gegnum þéttbýlið á Selfossi,“ segir í umsögn bæjarstjórnar.
Óskar hún eftir því að málið verði tekið upp í samráði sveitarfélagsins, Vegagerðarinnar, og sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps með það að markmiði að finna viðunandi flutningsleið utan þéttbýlis.
„Þá beinir sveitarfélagið því til Skeiða- og Gnúpverjahrepps að við meðferð umsóknar um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á grundvelli framangreindrar aðalskipulagsbreytingar verði sérstaklega leitað umsagnar Sveitarfélagsins Árborgar vegna flutningsleiða.“
Heimild: Visir.is











