Framkvæmdir eru hafnar við 300 fermetra viðbyggingu við verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð á Akureyri, þar sem heilsugæslustöð fyrir íbúa norðan Glerár verður. Heilsugæslan verður á allri efri hæð Sunnuhlíðar auk þess sem viðbótarbygging á tveimur hæðum kemur til norðurs.
Í allt fær Heilbrigðisstofnun Norðurlands til umráða um 1700 fermetra við Sunnuhlíð og segir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN, að stefnt sé að því að taka þá stöð í notkun seint á næsta ári. Því sem næst öll starfsemi stöðvarinnar verður á einni hæð sem Jón Helgi segir að auðveldi mjög flæði og bæti samstarf milli eininga. „Nýja stöðin verður bylting í aðstöðu starfsfólks og þjónustuþega, en til að fá og halda öflugu starfsfólki er nauðsynlegt að hafa starfsaðstæður sem henta starfseminni,“ segir Jón Helgi.
Höfum áhyggjur af stöðunni
Annað er uppi á tengingum varðandi hina nýju heilsugæslustöðina sem rísa á við Þingvallastræti, norðan gamla tjaldsvæðisreitsins. Þar hafa orðið tafir sem rekja má til ágreinings milli ríkis og bæjar um bílakjallara. Jón Helgi segir að vissulega hafi menn áhyggjur af þeirri stöðu.
Akureyrarbæjar bendir á að frá því farið var að vinna með skipulag á svæðinu hafi verið gert ráð fyrir bílakjallara undir stöðinni. Það sé forsenda þess að hún verði reist á þessum stað. Framkvæmdasýsla ríkisins – Ríkiseignir óskuðu á liðnum vetri eftir því að sleppa bílakjallara, með um 40 bílastæðum og bjóða þess í stað upp á fleiri bílastæði ofanjarðar. Ekki væri í fjárlögum gert ráð fyrir þeim kostnaði sem fylgdi byggingu bílakjallara til viðbótar við nýja heilusgæslustöð.
Allt stopp
Áætlanir gerðu ráð fyrir að stöðin í suðurhluta bæjarins yrði tilbúin á árinu 2024. Framkvæmdir eru ekki hafnar og málið varðandi bílakjallarann ekki leyst. Jón Helgi segir að því sé ekki vitað nú hvernær hægt sé að hefjast handa. Ef til vill þurfi að skoða aðra staðsetningu fyrir stöðina vegna deilunnar. „Ég vona svo sannarlega að takist að leysa málið því það er allt stopp núna með tilheyrandi töfum á verkefninu,“ segir Jón Helgi.
Heimild: Vikudagur.is