Home Fréttir Í fréttum Hin vind­myllan í Þykkva­bæ felld: „Við eigum von á að það gangi...

Hin vind­myllan í Þykkva­bæ felld: „Við eigum von á að það gangi betur en síðast“

78
0
Gerð verður tilraun til að fella hina vindmylluna í Þykkvabæ með því að saga hana niður í dag. VÍSIR/ARNAR

Vindmylla í Þykkvabæ verður felld í dag í heilu lagi. Einn þeirra sem mun sjá um niðurskurð hennar segir að í þetta sinn verði myllan felld á réttan hátt, ekki eins og þegar hin vindmyllan í Þykkvabæ var felld í vetur með miklum vandræðum.

<>

Fréttastofa mun að sjálfsögðu fara austur að Þykkvabæ til að fylgjast með niðurrifi vindmyllunnar. Sýnt verður frá því í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2 Vísi um klukkan 14.

Tvær vindmyllur hafa staðið við Þykkvabæ í tæpan áratug en þær eyðilögðust báðar í bruna, önnur árið 2017 og hin um síðustu áramót. Önnur þeirra var sprengd niður af sprengjusveit Landhelgisgæslunnar 4. janúar síðastliðinn og eins og margir muna gekk það einstaklega illa. Sex tilraunum og átta klukkustundum síðar tókst sprengjusveitinni að fella mylluna.

En nú á að gera þetta rétt. Til stendur að hefja niðurrif hinnar vindmyllunnar klukkan tvö í dag og hana á að fella í heilu lagi en Hringrás mun sjá um verkið.

„Við ætlum að fara að fella niður vindmylluna en við ætlum okkur ekki að sprengja hana, við ætlum að brenna hana niður,“ segir Sigmar Eðvardsson, einn eigenda Hringrásar. Notast verður við skurðartæki til að skera hana í sundur.

„Svo er því bara stjórnað hvernig hún fellur,“ segir Sigmar.

Lögreglan mun loka veginum að Þykkvabæ um hálf tvö til að tryggja að enginn óviðkomandi hætti sér of nálægt.

Heimild: Visir.is