Klæðningarflokkur Borgarverks, sem undirverktaki ÍAV, lauk núna undir kvöld við að leggja síðari umferð bundins slitlags á um fjögurra kílómetra kafla Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Þar með hafa um tólf kílómetrar malbiks bæst við á einu ári á þjóðveginn milli Flókalundar og Mjólkárvirkjunar en tvö ár eru frá því Íslenskir aðalverktakar hófu þennan fyrsta áfanga endurbóta vegarins um Dynjandisheiði.
Kaflinn sem núna var klæddur liggur um Helluskarð, milli Þverdals og Norðdalsár, en einnig var slitlag lagt á nýjan 600 metra kafla Bíldudalsvegar frá gatnamótum í skarðinu. Fyrri umferð slitlagsins var lögð á síðastliðinn mánudag, að sögn Bjarka Hlífars Stefánssonar, verkstjóra hjá Borgarverki.
Áður var búið að leggja bundið slitlag á rúma fjóra kílómetra milli Dynjanda og Mjólkár sem og á fjögurra kílómetra kafla úr Vatnsfirði um svokallaðan Pennusneiðing og upp fyrir Þverdalsá.
Þá hefur Vegagerðin samið við ÍAV um að lagfæra malarkaflann milli Flókalundar og Pennusneiðings, sem er um eins kílómetra langur. Ekki verður þó farið í fulla endurbyggingu heldur verður kaflinn breikkaður í haust og blindhæðir teknar af, að sögn Sigurþórs Guðmundssonar, verkefnisstjóra Vegagerðarinnar.
Slitlag bætist svo við næsta sumar en ótækt þótti að skilja þennan kafla eftir ómalbikaðan meðan tekist er á um nýtt framtíðarvegstæði um friðland Vatnsfjarðar.
Brúin yfir Pennu, þar sem styttan stendur af Pennukarlinum, verður áfram einbreið. Sigurþór segir að öryggi verði þó bætt við brúna með vegriði á veginn beggja vegna að henni.
Sigurþór vonast jafnframt til að Suðurverk hefji sem allra fyrst vinnu við næsta áfanga á Dynjandisheiði, 12,6 kílómetra kafla frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, um hæstu hluta heiðarinnar og norður fyrir sýslumörk. Suðurverk átti lægsta boð í verkið upp á 2.455 milljónir króna. Framkvæmdatími er áætlaður tæp tvö ár og gert ráð fyrir verklokum 15. júlí 2024.
Heimild: Visir.is