Aðgengi fyrir einstaklinga sem notast við hjólastól getur oft verið lélegt í hjáleiðum sem smíðaðar eru fram hjá vinnusvæðum þar sem framkvæmdir fara fram.
„Maður er alls staðar að keyra þar sem maður kemst ekki fram hjá og þarf jafn vel að snúa við og finna einhverja aðra leið. Þetta er endalaust svoleiðis,“ segir Grétar Pétur Geirsson, formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, félags hreyfihamlaðra.
Hann segir rampa líta vel út á myndum en þeir hafi nánast ekkert notagildi fyrir þann sem þarf að nota rampinn, því þeir séu ýmist of brattir eða of þröngir.
Grétar segist nota rafskutlu mikið, en hann lendi oft í því að komast ekki leið sína vegna illa búnar hjáleiðar fram hjá vinnusvæðum.
Hann segir lélegt aðgengi ekki einungis hamla fólk í hjólastólum. Hann segir þetta eiga einnig við um barnavagna og eldri fólk meðal annars.
Rampar ekki hugsaðir alla leið
Grétar segir verktakafyrirtæki hugsa oft til hreyfihamlaðra en það sé ekki hugsað alla leið. „Einstaklingar í hjólastólum eru eins mismunandi og þeir eru margir, sumir eru með mátt í höndunum og geta farið upp rampa, aðrir eru ekki með mátt í höndunum og geta engan veginn farið upp rampana,“ segir Grétar.
Hann segir þetta oft gert með góðum vilja en það sé ekki stuðst við þær teikningar hvernig á að gera rampa. „Það liggur alveg fyrir hvernig á að gera þetta,“ segir hann.
„Það liggur fyrir hver hallinn á að vera, breiddin og svoleiðis líka. En þetta er bara gert án þess að tala við einhvern, til að mynda okkur í Sjálfsbjörg. Við höfum unnið í þessu og vitum nákvæmlega hvernig allt á að vera,“ segir Grétar.
Grétar segir að í þrjátíu ára sögu hans hjá Sjálfsbjörgu hafi aldrei verið hringt í félagið um það hvernig rampur á að líta út. „Ég get fullyrt að það hefur aldrei í þrjátíu ára sögu minni í Sjálfsbjörgu verið hringt eitt einasta símtal um það hvernig rampur á að líta út, klósett eða nefndu það bara.“
Hann hvetur fólk sem smíðar þessa rampa til þess að leita upplýsinga hvernig rampurinn á að líta út. „Sjálfsbjörg er félag hreyfihamlaðra. Við erum að vinna í þessu alla daga,“ segir hann.
Má segja að aðgengi sé lélegt fyrir alla
Grétar segir að það megi vel segja að aðgengi sé lélegt fyrir alla en bendir á að fólk sem er á tveimur fótum geti oftar en ekki tekið hring fram hjá vinnusvæðinu. „En þú á rafskutlu eða með barnavagn, þú þarft að taka einhvern krók til þess að komast hjá.“
„Það er ekkert mál fyrir þig sem fótgangandi að stíga aðeins út á götuna, það er verra fyrir mann á hjólastól eða rafskutlu að fara út á götuna þar sem umferðin er. Það er ekkert pláss fyrir hjólastól á götunni,“ segir Grétar.
Heimild: Frettabladid.is