Home Fréttir Í fréttum Skoða burðarþol tveggja brúa

Skoða burðarþol tveggja brúa

24
0
Mynd: Mbl.is

Ráðast þarf í talsverðar vegabætur vegna mestu þungaflutninga sem fram munu fara hér á landi næsta vor og vorið 2027, þegar fluttar verða vindmyllur frá Þorlákshöfn að Vaðölduveri á Þjórsár- og Tungnársvæðinu.

Þar mun vindorkuver Landsvirkjunar rísa, en kostnaður við vindmyllukaupin, uppsetningu og rekstur, ásamt hönnun, framleiðslu, flutningi, uppsetningu og prófunum, nemur rúmum 20 milljörðum króna.

Samið hefur verið við þýska vindmylluframleiðandann Enercon um verkefnið. Þær vegabætur sem fara þarf í eru m.a. uppbygging Landvegar í Rangárþingi ytra á um 13 km kafla, en þegar hafa um sex kílómetrar verið klæddir með neðra klæðningarlagi, skv. upplýsingum frá Landsvirkjun. Samið var við Borgarverk um það verkefni, en fyrirtækið var lægstbjóðandi í verkið, með 760 milljónir.

Hluti verkefnisins er ný brú nærri Ísakoti yfir farveg leysingavatns og verður hún tvíbreið og um 16 metrar að lengd.

Þá þarf að ráðast í breikkun gatnamóta á flutningsleiðinni og einnig þarf að meta burðarþol Óseyrarbrúar yfir Ölfusá og Þjórsárbrúar. Áætlaður kostnaður við það liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er nú í undirbúningi að setja upp mælibúnað á Þjórsárbrúna til að staðfesta burðargetu hennar. Segir Vegagerðin að fordæmi séu fyrir þungaflutningum yfir þessar brýr vegna fyrri uppbyggingar við Búrfell og áður hafi verið fluttir yfir þær farmar nálægt 200 tonnum.

Þá verða og gerðar burðarþolsmælingar á vegum á flutningsleiðinni.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Heimild: Mbl.is