Home Fréttir Í fréttum Valkostur sem geri fleiri heimilum kleift að komast inn á fasteignamarkað

Valkostur sem geri fleiri heimilum kleift að komast inn á fasteignamarkað

27
0
Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. – RÚV

Nokkrir stórir byggingarverktakar bjóða nú upp á nýja fjármögnunarleið fyrir kaupendur. Hagfræðingur hjá HMS segir hana gera fleirum kleift að komast inn á markað. Kaupendur þurfi þó að vera meðvitaðir um áhætturnar sem henni fylgi.

„Þetta hefur kannski ekki rosalega mikil áhrif á markaðinn í heild sinni en á þann hluta markaðsins sem stendur verst núna gæti þetta skipt einhverju máli,“ segir Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, um nýja fjármögnunarleið fyrir kaupendur eigna sem nokkrir stórir byggingarverktakar bjóða nú upp á.

Í henni felst að sjóður í eigu byggingarverktakans leggi til allt að 20 prósent af kaupverði eignar. Þannig verður sjóðurinn meðeigandi að eigninni, stendur skil af 20 prósentum af fasteignagjöldum og borgar kostnað af þeim framkvæmdum sem húsfélagið samþykkir.

Jónas segir hagstætt fyrir neytendur að hafa marga valkosti á markaðnum. Þessi valkostur geri fleiri heimilum kleift að komast inn á fasteignamarkað og feli ekki í sér meiri skuldsetningu. Þessir hlutir séu jákvæðir.

Leiga geti komi flatt upp á fólk í lok eignatímabils

Þó séu áhættur sem kaupendur ættu að vera meðvitaðir um.

„Við hjá HMS höfum til dæmis áhyggjur af því að þessi leiga sem heimilin greiða af þessum eignahlut komi svolítið flatt upp á kaupendur vegna þess að hann getur verið gerður upp í lok eignatímabilsins,“ segir Jónas.

Leigan sé verðtryggð og vaxi því með verðbólgunni. „Það gæti leitt til þess að ef verðbólga er mikil og fasteignaverð hækkar lítið að eignamyndunin eða eiginfjármyndunin verði lítil sem engin eða jafnvel neikvæð.“

Spurður hvort HMS mæli með þessari leið segir Jónas kaupendur geta tekið sínar ákvarðanir best.

Þessi leið geti liðkað fyrir á þeim hluta fasteignamarkaðsins sem sé kaldur núna; nýbyggingar sem seljist hægt og illa. Þetta sé þó afmarkað úrræði, fæstir kaupendur eigi þess kost að fara þessa leið.

Heimild: Ruv.is