Home Fréttir Í fréttum Jarðskjálftar hafi hugsanlega haft áhrif á lögnina

Jarðskjálftar hafi hugsanlega haft áhrif á lögnina

130
0
Mynd: Kristján Ingvarsson - RÚV
Ekki er talið ólíklegt að jarðskjálftar hafi átt þátt í því að kaldavatnslögnin í Hvassaleiti gaf sig fyrir síðustu helgi. Enn er þó unnið að því að grafa niður að lögninni svo hægt sé að varpa ljósi á hvað nákvæmlega leiddi til þess að samskeytin brotnuðu með þeim afleiðingum að vatn flæddi um hverfið.

Lögnin gaf sig á föstudagskvöld og um þrjú þúsund tonn af vatni flæddu um Hvassaleitið. Olgeir Örlygsson, sérfræðingur í rekstri vatnsveitu hjá Veitum, segir að enn sé verið að grafa frá lögninni og meta aðstæður.

<>

„Við þurfum að sjá hvernig hún lítur út allan hringinn á lekastaðnum og hvort rör hafi sigið og slíkt. Og erum svona að gera okkur nákvæmlea grein fyrir biluninni og þeim aðferðum sem standa okkur til boða, að gera við eða meta hvor okkar næstu skref verða,” segir Olgeir.

Hann segir að viðgerðir taki almennt nokkurn tíma, sérstaklega þegar þær eru af þessari stærðargráðu. Íbúar þurfi þó ekki að hafa áhyggjur.

Aðspurður segir Olgeir að ekki sé hægt að segja með fullri vissu hvað orsakaði það að samskeytin brotnuðu.

„Við höfum ákveðnar grunsemdir um að það hafi mögulega verið komnar sprungur í steypuna sem hafa hleypt vatni af járngrindinni í rörinu og að hún hafi misst styrk. Hvers vegna það hefur gerst getum við ekki sagt,” segir hann.

Þá segir hann að hægt sé að útiloka að aspir hafi átt einhvern þátt í þessu en að hugsanlega gætu jarðskjálftar haft áhrif.

„Það er vel mögulegt miðað við hvað það sprakk stór fleki úr lögninni. Svo höfum við hugleitt það hvort það hafi verið byrjaðar að myndast einhverjar spennur í þessum samskeytum sem hafi þá reynt á einhvern styrkleika þannig að það hafi farið stærra stykki úr en ella því við höfum ekki séð svona svakalegt brot á lögnum hjá okkur áður.”

Heimild: Ruv.is