Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks ganga vel

Framkvæmdir við Sundlaug Sauðárkróks ganga vel

376
0
MYND: ÓAB

Seinni part janúarmánuðar samdi svf. Skagafjörður við skagfirska byggingaverktakann Uppsteypu um áfanga II við uppbyggingu Sundlaugar Sauðárkróks og hefur vinna við laugina staðið yfir síðan í mars. Trausti Valur Traustason hjá Uppsteypu segir framkvæmdir ganga vel og þeir Uppsteypumenn séu bjartsýnir á að klára verkið á tilsettum tíma. Verklok eru áætluð 30. október 2022.

<>

Trausti segir verkefnið bæði krefjandi og flókið. „Við erum búnir að steinsaga og fjarlægja hluta af suðurveggnum á kjallara núverandi sundlaugar og verður þar opið á milli nýja og eldri hlutans. Steypa undirstöður og kjallaragólf og síðan er búið að steypa útveggi kjallara og stoðveggi utan við kjallararann og við erum núna að leggja lokahönd á veggjasteypur innan kjallara. Það eru veggir og súlur undir rennibrautir, burðarveggir undir sundlaug, vatnstankar sem verða undir sundlaug og sundlaugarbakka og svo sundlaugarkantar með innsteyptum rennum, ljósa- og myndavélaúrtökum ásamt úrtökum fyrir lagnakerfi sundlaugar. Næsta skref er svo að slá undir og steypa sundlaugarbotninn og svo laugarbakkann. Eins og staðan er núna erum við bjartsýnir á að klára verkið á tilsettum tíma.“

Hver er staðan á verkinu þegar ykkar verkefni er lokið og hvað á þá eftir að gera? „Þegar við höfum lokið okkar verkefni verður uppsteypu mannvirkisins lokið. Eins verður búið að koma fyrir þeim vatnslögnum sem þarf til að hægt sé að klára steypuvinnuna og úrtökum fyrir raflagnir og lagnir sundlaugarkerfis. Þá verður eftir vinna við flísalagnir í sundlaug og allur frágangur á yfirborði sundlaugar og sundlaugarbakka.“ Hann segir að einnig verði eftir öll vinna við raflagnir og lagnavinna við sundlaugarkerfið ásamt öllum frágangi á handriðum og þess háttar. „Síðan verður eftir að koma fyrir rennibrautunum ásamt frágangi útveggja og hurða að vestan.“

Eru næg verkefni hjá smiðum í Skagafirði? „Eins og er eru næg verkefni hjá smiðum í Skagafirði og ekki hægt að segja annað en að það sé í mörg horn að líta“

Hafa menn ekkert náð sér í smá tan í sumar í vinnunni? „Eitthvað tan er nú komið á mannskapinn þó að sumarið hafi ekki komið með miklum hvelli,“ segir Trausti frá Syðri-Hofdölum.

Heimild: Feykir.is