Home Fréttir Í fréttum Kaldalón hagnast um 1,4 milljarða

Kaldalón hagnast um 1,4 milljarða

92
0
Jón Þór Gunnarsson er forstjóri Kaldalóns. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 1,4 milljarða á fyrri helmingi árs, sem er besta afkoma félagsins frá upphafi. Bókfært virði fjárfestingareigna félagsins jókst um 60% á milli ára.

<>

Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 1,4 milljarða á fyrri helmingi árs, samanborið við 699 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutreikningi. Um er að ræða bestu afkomu félagsins frá upphafi, en arðsemi eigin fjár á ársgrunni er 33%.

Rekstrargjöld námu 240,8 milljónum og hrein fjármagnsgjöld voru 504 milljónir á fyrri helmingi ársins. Heildareignir félagsins námu rúmlega 31 milljörðum króna. Bókfært virði fjárfestingareigna félagsins jókst um 60% á milli ára, fór úr 17,8 milljörðum í 28,6 milljarða. Eigið fé Kaldalóns var 13 milljarðar samanborið við 8,3 milljarða í árslok 2021. Vaxtaberandi skuldir námu tæplega 15 milljörðum króna í lok júní.

Samstæðan átti 24 fasteignir til útleigu í lok júní, eða sem nemur 51.500 fermetrum. Félagið hefur undirritað kauptilboð eða kaupsamninga, sem að hluta til eru ennþá háðir fyrirvörum, þannig að heildarstærð safnsins verði 76.900 fermetrar við afhendingu eigna. Tekjuvegið útleiguhlutfall samstæðunnar í heild er nú 98,4%.

Áform um skráningu á aðalmarkað

Stjórn Kaldalóns hefur ákveðið að gera fyrirhugaða skráningu á aðalmarkað kauphallar markmiðadrifna. Þannig hafa fjögur markmið verið lögð fram og stefnir félagið á að ná þremur af þeim fjórum markmiðum áður en það óskar eftir skráningu á aðalmarkað.

Markmiðin eru:

  1. Fjárfestingareignir félagsins nemi 50 milljörðum króna
  2. Félagið hafi gefið út endurskoðaðan ársreikning sem fasteignafélag
  3. Félagið hafi gefið út grunnlýsingu veegna útgáfu skuldaskjala
  4. Leigutekjur til tólf mánaða séu hærri en sem nemur 3,5 milljörðum króna

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri:

„Kaldalón setti sér metnaðarfull markmið um umbreytingu í fasteignafélag fyrir rúmu ári síðan. Umbreyting hefur gengið samkvæmt áætlun og grunnur lagður að sterku fasteignafélagi. Félagið skilar nú bestu afkomu frá upphafi.

Félagið hefur gengið frá kaupum eða gert samkomulag um kaup á 76.900 m2 en áætlaðar tekjur nema um 2.898 m.kr. á ársgrundvelli eftir afhendingu eigna.

Félagið hefur sett sér markmið um frekari vöxt sem kynntur verður á fjárfestakynningu 23. ágúst. Samhliða verður fjárfestakynningu dreift í fréttakerfi kauphallar.“

Heimild: VB.is