Home Fréttir Í fréttum Fyrirtæki sópa upp íbúðir á fasteignamarkaði

Fyrirtæki sópa upp íbúðir á fasteignamarkaði

75
0

Fyrirtæki í eigu einstaklinga og verðbréfasjóða eru gríðarlega umsvifamikil á fasteignamarkaði og má gera ráð fyrir að allt að 300 íbúðir hverfi úr húsnæðisveltu á ári. Þá eru þúsundir íbúða á landinu í útleigu til ferðamanna, en þessir tveir þættir hafa mjög mikil áhrif á þróunina á leigumarkaði.

<>

Fjallað er um þróun leigumarkaðarins í Hagsjá Landsbankans, þar sem fram kemur að tæplega 21 prósent einstaklinga hafi búið í leiguhúsnæði í fyrra. Það er álíka hlutfall og Norðurlöndum.

Um þessar mundir eru það tveir þættir sem hafa mikil áhrif á leigumarkaðinn, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Annars vegar eru það uppkaup fyrirtækja á íbúðum sem síðan eru ætlaðar til útleigu og hins vegar stóraukin útleiga íbúða til ferðamanna.

Uppkaup fyrirtækja, sem ýmist eru í eigu verðbréfasjóða og einstaklinga, hefur að sögn hagfræðinga Landsbankans þrengt töluvert að hefðbundnum sölu- og kaupmarkaði fasteigna og vafalaust stuðlað að verðhækkunum. Upphaflega voru uppkaupin bundin við höfuðborgarsvæðið en hringurinn hefur stækkað.
Á síðustu ársfjórðungum hefur 5-8% af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem einstaklingar hafa selt farið til fyrirtækja og er þetta hlutfall mun hærra miðsvæðis í Reykjavík. Gróft áætlað er þarna um 250-300 íbúðir að ræða sem árlega hverfa úr veltu með þessum hætti. Þessar íbúðir stækka leigumarkaðinn og því til viðbótar kaupa leigufélögin væntanlega einnig íbúðir frá öðrum fyrirtækjum.

Á móti þessari auknu eftirspurn vinnur heimagisting til erlendra ferðamanna sem jókst um 223 prósent milli áranna 2010 og 2014. Í júlí á þessu ári voru 1.900 gistirými í boði í Reykjavík á einni slíkri síðu og 2.400 á landinu öllu. Þetta þýðir að 4 prósent allra íbúða í Reykjavík voru skráðar á þessa tilteknu síðu, en einungis 14 prósent þessara íbúða var með rekstrarleyfi.
Þarna er greinilega um mjög umfangsmikla starfsemi að ræða og ekki er ólíklegt að fjöldi íbúða í þessu mengi sé mun meiri en hefur numið fjölgun leiguíbúða sem leigufélög bjóða fram. Hátt nýtingahlutfall á hótelum í borginni bendir til þess að þessi starfsemi hafi verið nauðsynleg viðbót við það gistirými sem er fyrir hendi til þess að hægt sé að anna eftirspurn.
Heimild: Pressan.is