Home Fréttir Í fréttum Gólfplata brast vegna mistaka í steypuvinnu við Hlíðarenda

Gólfplata brast vegna mistaka í steypuvinnu við Hlíðarenda

307
0
Mynd: Visir.is/línuborun

Betur fór en á horfðist fyrir skemmstu þegar nýsteypt gólfplata í nýbyggingu á Hlíðarendareitnum svokallaða í Reykjavík gaf sig. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu sakaði engan í óhappinu.

<>

Vinnueftirlitið greinir frá því að það liggi fyrir hvað gerðist en samkvæmt því var burðarþol uppsláttar undir plötunni ekki nægilegt.

Eftir því sem næst verður komist var steypan ekki þornuð og rann því til þegar undirstöður gáfu sig.

Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri Vinnueftirlitsins, staðfestir að atvikið hafi verið tilkynnt til stofnunarinnar en að fulltrúar hafi ekki farið á svæðið eftir óhappið.

Það verði þó gert síðar og öll öryggismál framkvæmdasvæðisins skoðuð eins og venja er.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu byggingarfulltrúa Reykjavíkur fyrir helgi hafði málið ekki verið tilkynnt þangað en staðfest sömuleiðis að byggingarfulltrúi myndi spyrjast fyrir um hvað þarna gerðist.

Ekki fengust upplýsingar um það í gær hvort niðurstaða hafi fengist í þá skoðun.

Eftir að gólfplatan gaf sig fyrir jól var verktakafyrirtækinu Línuborun falið að klára að brjóta niður afganginn af gólfplötunni, sem þarf að endurgera.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er tjónið nokkurt. Línuborun þurfti meðal annars að nota fjarstýrða brotvél til verksins.

Línuborun birti myndir af verkinu á Facebook-síðu sinni og veitti Fréttablaðinu leyfi til að endurbirta þær. Þar segir sömuleiðis að mikil heppni sé að enginn hafi slasast.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er tjónið nokkurt.
Mynd/línuborun

Fyrirhugað er að nærri átta hundruð íbúðir rísi á Hlíðarendareitnum svokallaða.

Fyrstu íbúðirnar sem byggðar voru fóru í sölu í byrjun síðasta árs. Þrátt fyrir umleitanir Fréttablaðsins tókst ekki að hafa uppi á verktakanum sem kom að því að steypa gólfplötuna.

Heimild: Visir.is