Home Fréttir Í fréttum Reykjavík fimmfaldaði lóðaúthlutanir sínar á síðasta ári

Reykjavík fimmfaldaði lóðaúthlutanir sínar á síðasta ári

75
0
Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Reykjavík úthlutaði á síðasta ári lóðum undir fimmfalt fleiri íbúðir en næstu tvö ár á undan samanlagt. Þá hefur Reykjanesbær úthlutað fleiri lóðum en Kópavogur og Hafnarfjörður samanlagt frá síðustu kosningum.

Fréttastofa sagði fyrir tæpu ári frá lóðaúthlutunum nokkurra stærstu sveitarfélaga landsins það sem af var kjörtímabili. Þá hafði Reykjavíkurborg úthlutað færri lóðum en Reykjanesbær, Kópavogur og Hafnarfjörður. Nú ári seinna er staðan hins vegar töluvert breytt, þar sem sprengin hefur orðið í úthlutunum í Reykjavík.

<>

Fyrir ári hafði Reykjavík úthlutað 317 íbúðum. Á síðasta ári var hins vegar úthlutað 1711 íbúðum – semsagt ríflega fimmfalt meira en áður hafði verið gert það sem af var kjörtímabilinu.

Kópavogur hafði fyrir ári úthlutað lóðum undir 348 íbúðir. 65 bættust við í fyrra – samanlagt eru því íbúðirnar 413.

Hafnarfjörður kemur þar skammt á eftir. Þar hafði lóðum undir 329 íbúðir verið úthlutað fyrir ári og hafa 66 bæst við. Samtals eru íbúðirnar 395.

Garðabær hafði úthlutað lóðum fyrir 42 íbúðir fyrir ári. Engin bættist við í fyrra.

Reykjanesbær setti hins vegar aukinn kraft í úthlutanir. Fyrir ári hafði lóðum undir 359 íbúðir verið úthlutað. Í fyrra bættist 541 íbúð við. Samtals eru íbúðirnar þar því 900.

Mosfellsbær hafði úthlutað lóðum undir 200 íbúðir í fyrra. Á síðasta ári var hins vegar veitt byggingarleyfi fyrir 230 íbúðum. Í svari bæjarins er það tekið fram að lóðirnar hafi verið á hendi einkaaðila – einstaklinga eða fyrirtækja – og því hefur bærinn aðeins upplýsingar um byggingarleyfi. Þessar tölur eru því ekki að öllu leyti sambærilegar við hin sveitarfélögin.

Akureyri úthlutaði lóðum fyrir lágmark 160 íbúðir á síðasta ári en þær geta mögulega orðið fleiri þar sem deiliskipulag á hluta reitanna gefur svigrúm til þess. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hversu mikil úthlutunin var áður á kjörtímabilinu.

Þess má geta að Samtök iðnaðarins gáfu út tölur yfir íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í september síðastliðnum og báðu það saman við febrúar í fyrra. Þar kom í ljós að þeim íbúðum hafði fjölgað alls staðar, nema í Hafnarfirði. Þar hafði þeim fækkað um nærri þrjátíu prósent.

Heimild:Ruv.is