Sigurbjörn og Aðalheiður óskuðu eftir því að fá að reisa 54,5 fermetra viðbyggingu norðanvert við húsið að Sjafnargötu 3. Nota átti hana sem vinnustofu og tengja hana við kjallara hússins. Jafnframt gerðu þau ráð fyrir að rífa bílskúr sem stendur á sama stað. Morgunblaðið fjallaði talsvert um framkvæmdirnar á sínum tíma.
Þegar tillagan var grenndarkynnt bárust umsagnir frá eiganda Sjafnargötu 3 sem tók jákvætt í framkvæmdirnar og svo mótmæli frá Samtökum íbúa við Sjafnargötu og Freyjugötu en þau voru stofnuð gagngert til að berjast gegn viðbyggingunni. Byggingafulltrúi hafnaði síðan umsókn hjónanna eftir að umhverfis-og skipulagsráð hafði tekið málið fyrir á fundi sínum og farið yfir umsögn skipulagsfulltrúa.
Í kæru hjónanna er bent á að sá nágranni sem hafði hvað mestra hagsmuna að gæta hafi veitt jákvæða umsögn um framkvæmdirnar. Þær neikvæðu athugasemdir sem hafi borist hafi hins vegar verið ómálaefnalegar.
Borgin benti á að ekkert deiliskipulag væri fyrir hendi og skipulagsfulltrúi hafi talið gera þyrfti slíkt eða hverfisskipulag til að taka heildstætt á viðbyggingunni þar sem þetta væri fordæmisgefandi breyting.
Úrskurðarnefndin telur að verulega hafi skort á rannsókn við undirbúning ákvörðunar byggingarfulltrúans og að rökstuðningi hennar hafi verið svo áfátt að fallast verði að kröfu Sigurbjörns og Aðalheiðar um ógildingu hennar. Nýtingarhlutfallið eftir áformaða stækkun hússins yrði ekki umfram það sem finna megi á lóðum við Sjafnargötu.
Það yrði því vart fordæmisgefandi um aukið nýtingarhlutfall lóða við götuna umfram það sem þegar er orðið. „Loks verður ekki annað séð en að umrædd viðbygging hefði óveruleg, eða engin, áhrif á götumynd Sjafnargötu, enda yrði byggingin reist að baki húss kærenda sem stendur nær götu,“ segir í úrskurði nefndarinnar.
Sigurbjörn hefur meðal annars verið viðskiptafélagi þeirra Hallbjörns Karlssonar og Árna Haukssonar en þremenningarnir fengu að kaupa hluti í Högum og Símanum fyrir útboð. Athygli vakti þegar þau hjónin keyptu Ásmundarsal á Freyjugötu fyrir 168 milljónir í maí 2016.
Heimild: Ruv.is