Home Fréttir Í fréttum Plöntusali í hart vegna nýbygginga á Eden-reit

Plöntusali í hart vegna nýbygginga á Eden-reit

133
0
Mynd: hveragerdi.is
Eigandi garðplöntusölunnar Borgar hefur kært ákvörðun Hveragerðisbæjar varðandi deiliskipulag á svokölluðum Eden-reit og krefst þess að það verði ógilt. Hann telur fyrirhugaðar byggingar hafa veruleg áhrif á rekstur hans og valda honum miklu fjártjóni.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti deiliskipulagið á fundi sínum í júlí. Heildarfjöldi íbúða verður 60 til 70 í tveggja til þriggja hæða fjölbýlishúsum með 2 til 4 herbergja íbúðum frá 60 til 100 fermetrar að stærð.

<>

Eigandi lóðarinnar að Þelamörk 52 til 54 hefur nú kært deiliskipulagið og krefst þess að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála.  Á lóðinni hefur verið rekið gróðurhús og garðplöntusalan Borg frá árinu 1975.

Í kærunni, sem var lögð fram á fundi bæjarráðs á fimmtudag, er því haldið fram að fyrirhugaðar byggingar muni hafa veruleg áhrif á rekstur gróðurhússins og garðplöntusölunnar og valda „gríðarlegu fjártjóni.“ Framkvæmdirnar muni nánast eyðileggja framtíðarmöguleika lóðarinnar og því sé grenndarréttur hans ekki virtur.

Í kærunni segir enn fremur að eigandi plöntusölunnar hafi orðið sér úti um matsgerð frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins þegar deiliskipulagið var fyrst kynnt. Samkvæmt matsmönnum myndu byggingarnar á Eden-reitnum hafa veruleg áhrif á vaxtarskilyrði plantna og rýra bæði framleiðslumöguleika gróðurstöðvarinnar og verðgildi.

Bærinn ákvað í framhaldinu að lækka tvær byggingar en eigandi Borgar segir þetta litlu skipta. Þrjú tveggja hæða fjöleignarhús skapi verulegt skuggvarp á lóð hans. Hann telur bæjarstjórn sveitarfélagsins ekki hafa rannsakað hvaða grenndaráhrif byggingarnar á fjórum lóðum myndu hafa á lóð hans og því sé farið fram á að nýtt deiliskipulag lóðarinnar verði ógilt og framkvæmdir stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar.

Þetta er ekki eina málið sem hefur komið upp í tengslum við uppbygginguna á Eden-reitnum.  Hveragerðisbær bauðst til að greiða húsfélaginu að Reykjamörk 2 bætur upp á 2,5 milljónir þar sem ein af nýbyggingunum gengi að hluta inn á lóð húsfélagsins og minnkaði hana um 309 fermetra. Bærinn hét því jafnframt að sjá til þess að ekki yrði raskað við hól á suðurhorni lóðarinnar sem íbúarnir telja að sé álfahóll.

Heimild: Ruv.is