Fasteignaverð hefur hækkað margfalt hraðar en byggingarkostnaður á síðustu 12 mánuðum. Byggingarvísitalan, sem segir til um kostnað við húsbyggingar, hefur einungis hækkað um 1,1% á meðan vísitala fasteignaverðs fyrir landið allt hækkaði um 24,2%. Þetta er 22 föld meiri hækkun fasteignaverðs en byggingarkostnaðar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍbúðalánasjóðiÍ tilkynningunni segir Guðmundur Sigfinnsson, hagfræðingur í hagdeild sjóðsins:
„Þróun byggingarkostnaðar hefur allt frá árinu 2013 verið í talsvert rólegri takti en þróun fasteignaverðs, sem er eðli málsins samkvæmt meiri sveiflum háð. Munurinn milli þessara stærða hefur sérstaklega aukist frá byrjun árs 2016, en frá því í janúar 2016 hefur byggingarvísitalan hækkað um 4% en fasteignaverð um 29,2%.“ Guðmundur fjallaði um þróun helstu stærða sem horft er til á húsnæðismarkaði á reglulegum upplýsingafundi með fasteignasölum í morgun.
Guðmundur segir að ólíklegt að þessi þróun geti haldið mjög lengi áfram. „Sé horft til langs tíma ætti að vera nokkuð sterk fylgni á milli fasteignaverðs og byggingarkostnaðar, þ.e.a.s. ef fasteignaverð hækkar mikið umfram byggingarkostnað verður sífellt arðbærara að byggja nýjar íbúðir sem ætti hvetja til vaxandi framboðs nýrra íbúða og markaðurinn mun þá leita í nýtt jafnvægi. Misvægið á milli þessara tveggja stærða er nú farið að nálgast það sem mest var á árunum 2007-2008. Það eru hins vegar til staðar sterkar vísbendingar um að talsvert hafi dregið úr þeim mikla hækkunartakti fasteignaverðs sem verið hefur á markaðnum undanfarið og sagan segir okkur að fasteignaverð á það til að leita í byggingarkostnað þegar til lengra tíma er litið.“
Heimild: Vb.is