Home Fréttir Í fréttum Byggingargallatrygging fyrir fórnarlömb myglu

Byggingargallatrygging fyrir fórnarlömb myglu

185
0
Í Umhverfisráðuneytinu er nú verið að skoða hvort til greina komi að taka upp svokallaða byggingargallatryggingu og fella niður starfsábyrgðartryggingar. Byggingagallatryggingin myndi auðvelda íbúðakaupendum að fá bætt tjón vegna myglusvepps í nýbyggingum.

Þingsályktunartillaga um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra sem Kristján Möller, Samfylkingu, ásamt 13 öðrum þingmönnum lagði fram á Alþingi haustið 2013, var samþykkt í maí 2014. Samkvæmt tillögunni var umhverfisráðherra falið að skipa starfshóp sem átti að fara yfir þörfina á að endurskoða lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til tjóns af völdum myglusveppa.

<>

Þegar tillagan var lögð fram hafði nýlega komið í ljós myglusveppur í 50 nýlegum húsum á Egilsstöðum og á Reyðarfirði. Niðurstaðan var að rekja mætti skemmdirnar til samspils nokkurra þátta við hönnun, uppbyggingu, meðferð byggingarefna og að rangt efni hefði verðið notað í þakklæðningu. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að á undanförum árum hafi um 100 fjölskyldur þurft að yfirgefa heimili sín vegna myglu í lengri eða skemmri tíma.

Skýrslu skilað fyrir 2 árum

Starfshópur sem ráðherra skipaði skilaði skýrslu vorið 2015. Í henni var bæði farið yfir þau lög og reglur sem ná eða geta náð til tjóns af völdum myglusvepps og jafnframt regluverkið sem kveður á um að byggja á þann hátt að ekki sé hætt við vatnsleka eða rakamyndun. Skýrslunni fylgdi líka greinargerð um réttarstöðu þeirra sem sem verða fyrir tjóni af völdum myglu í húsum.

Meginniðurstaða skýrsluhöfunda er að ekki sé þörf á umfangsmiklum lagabreytingum í þeirri viðleitni að ráða bót á mygluvandanum. Hins vegar sé þörf á að auka fræðslu, leiðbeiningar, menntun fagaðila og auka þurfi rannsóknir sem gætu leitt til nýrra vinnubragða og byggingaraðferða. Starfshópurinn leggur samt sem áður fram 18 tillögur um ráðstafanir sem gætu dregið úr mygluskaða og að líka verði hugað að vernd neytenda.

Vilja skoða byggingargallatryggingar

Hópurinn leggur til að ákvæði í lögum um starfsábyrgðartryggingar fagaðila verði endurskoðuð. Samhliða verði litið til byggingargallatryggingar í Danmörku sem veitir neytendum sem hafa orðið fyrir tjóni vegna myglusvepps í nýbyggingum vernd og kannað hvort ástæða sé til að taka upp slíkar tryggingar hér á landi. Þá verði fylgst með fyrirhugaðri setningu reglna í Danmörku um sérstaka neytendavernd með eigendatryggingu við sölu fasteigna. Þá er lagt til að bætt verði ákvæði í húsaleigulög um skyldu leigusala til að upplýsa leigjendur um raka og mygluvandamál í leiguhúsnæði og kveðið verði á að úttekt á húsnæði verið gerð af fagmanni. Önnur atriði snúa meðal annars að því að áhersla verði lögð á að farið verið eftir ákvæðum í byggingarreglugerð og fræðsla á ýmsum sviðum sem lúta að byggingarframkvæmdum verði aukin. Einnig að aukið fjármagn verði lagt í rannsóknir á sviði byggingareðlisfræði og viðhaldi bygginga. En hefur verið brugðist við þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni?

Í svari við fyrirspurn Valgerðar Gunnarsdóttur Sjálfstæðisflokki á Alþingi í vor um hvað gert hafi verið með ábendingarnar sem fram koma í skýrslunni kemur fram að flestar þeirra hafi verið sendar til ráðuneyta sem fjalla um viðkomandi málaflokka. Þá hafi bæði Mannvirkjastofnun og Umhverfisstofnun brugðist við ábendingum. Gefnir hafa verið út bæklingar og fræðsluefni, samvinna milli þeirra sem koma að byggingarframkvæmdum aukin og stefnt er að því að efla byggingarrannsóknir.

Snýst um að tryggja verkið

Í myglumálum hefur ítrekað komið fram að erfitt getur reynst að sækja bætur vegna þess að neytandinn þarf að sanna sök til að fá tjónið bætt. Ein af tillögum nefndarinnar er um að teknar verði upp hér byggingargallatryggingar. Hafsteinn Pálsson verkfræðingur í Umhverfisráðuneytinu segir að lög kveði á um að hönnuðir og byggingarstjórar eigi að vera með sjálfsábyrgðartryggingar.

„Til þess að sækja á þær tryggingar þá þarf að sýna fram á að eitthvað hafi farið úrskeiðis í störfum viðkomandi. Það væri mun heppilegra að horft væri til þess að tryggja verkframkvæmdina sem slíka. Ef að henni er áfátt þá eigi eigandi hennar möguleika á að sækja bætur hjá tryggingarfélaginu. Þetta snýst fyrst og síðast um þessa breytingu. Þetta er til skoðunar núna og komið í vinnslu,“ segir Hafsteinn.

– Og þá er er verið að velta fyrir sér byggingargallatryggingu sem Danir hafa tekið upp?

„Það er verið að horfa til Norðurlandanna og skoða kosti og galla þess fyrirkomulags sem þar er. Þar geta menn fengið bætur en þar er yfirleitt verið að miða við verulegt tjón en ekki einhver smámál. Þetta snýst um að tryggja verkið en ekki persónur og leikendur,“ segir Hafsteinn.

Heimild: Ruv.is