Home Fréttir Í fréttum Vilja sprengja Hádegissteininn í Hnífsdal

Vilja sprengja Hádegissteininn í Hnífsdal

196
0
Mynd: Tómas Jóhannesson
Svokallaður Hádegissteinn sem prýðir fjallshlíðina fyrir ofan byggð í Hnífsdal hefur skriðið um nokkra sentimetra niður hlíðina og sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands óttast að hann gæti fallið fyrirvaralaust niður í byggð. Þeir leggja til að steinninn verði sprengdur.

Þetta kemur fram á vefnum bb.is.

<>

Hádegissteinninn, sem er nokkuð þekkt kennileiti í Hnífsdal, vegur tugi tonna og rís um 4 metra upp úr fjallshlíðinni. Við athugun sérfræðinga hjá Veðurstofunni kom í ljós að steinninn hafði færst úr stað og er kominn nær byggðinni. Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati, segir hættuna þó ekki mikla.

„Hættan er ekki bráð en hún er einhver. Það eru steinar þarna ofan við byggðina, rétt ofan við byggðina sem hafa farið úr hlíðinni á svipuðum stað. Hann er væntanlega jökulborinn og búinn að vera þarna í einhver þúsundir ára. Við vildum samt bara benda á það að hann er að einhverju leyti laus í hlíðinni,“ segir Magni.

Til þess að minnka hættuna á því að steinninn falli niður í byggðina vilja sérfræðingarnir gera ráðstafanir. Bestu leiðina segir Magni að sprengja steininn, þannig megi losna við hann úr hlíðinni. Aðrar leiðir séu þó færar.

„Hugsanlega mætti kanna með að festa hann niður, en þá náttúrulega væri hann enn til staðar,“

Minnisblað um athugunina hefur verið lagt fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar.

Heimild: Ruv.is