Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hafi verið heimilt að ganga til samninga við verktakafyrirtækið LNS Sögu ehf. um byggingu hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu.
Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir að fyrir hafi legið opinberlega áritun óháðs endurskoðanda LNS Sögu í ársreikningi fyrir árið 2015 um að eiginfjárhlutfall félagsins sé rétt ríflega 2%, rekstur þess „í járnum“ og að veruleg óvissa sé uppi um fjármögnun félagsins sem aftur geti „haft veruleg áhrif á rekstrarhæfi félagsins og þar af leiðandi getu þess til að innleysa eignir og gera upp skuldir við eðlileg rekstrarskilyrði.“
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að bæjarfélagið tók ákvörðun um að ganga að tilboðinu þrátt fyrir að í útboðsskilmálum, sem tóku til hæfis bjóðenda, væri kveðið á um að félagið gæti framvísað ársreikningi fyrir árið 2014, eða árshlutareikningum fyrir síðasta eða næstsíðasta árshluta 2015, þar sem endurskoðandi staðfesti annars vegar jákvæða eiginfjárstöðu bjóðanda og hins vegar að viðkomandi reikningur væri „án athugasemda um rekstrarhæfi félagsins við skil á umsókn.“