Home Fréttir Í fréttum Helm­ingi leng­ur að byggja á Íslandi en í Nor­egi

Helm­ingi leng­ur að byggja á Íslandi en í Nor­egi

86
0

Á Íslandi þarf 35-60% fleiri vinnu­stund­ir en í Nor­egi til að byggja hvern fer­metra íbúðarein­ing­ar í fjöl­býl­is­húsi. Þannig þarf í Nor­egi aðeins 23 vinnu­stund­ir á hvern fer­metra, en hér á landi 31-37 tíma. Þetta kem­ur fram í rann­sókn Ævars Rafns Hafþórs­son­ar og Þórólfs Matth­ías­son­ar, en niður­stöðurn­ar voru kynnt­ar á Þjóðarspegli, ráðstefnu í fé­lags­vís­ind­um, sem fór fram í Há­skóla Íslands ný­lega.

<>

Gæti hækkað laun og lækkað fast­eigna­verð

Ævar hef­ur sjálf­ur verið iðnaðarmaður í 20 ár og seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann hafi vitað að ein­hver mun­ur væri á fram­leiðni milli land­anna en að niðurstaðan hafi komið hon­um á óvart. Seg­ir hann að helstu ástæður þessa mikla mun­ar séu skipu­lag á vinnustað og ör starfs­manna­velta vegna djúpra hagsveiflna.

Með því að bæta fram­leiðnina seg­ir Ævar að margt geti áunn­ist. Í fyrsta lagi þýði auk­in fram­leiðni að hægt sé að klára verk á skemmri tíma og þannig sé hægt að draga úr fram­leiðslu­kostnaði. Í öðru lagi geti auk­in fram­leiðni líka slegið á fram­boðsskort íbúðar­hús­næðis eins og þann sem sé hér á landi í dag. Í þriðja lagi geti auk­in fram­leiðni leitt til þess að hægt sé að greiða iðnaðarmönn­um hærri laun og það hafi verið reynsl­an í Nor­egi. Að lok­um seg­ir hann þetta geta haft já­kvæð áhrif á stýri­vexti þar sem auk­in fram­leiðni búi ekki til þenslu held­ur auki fram­leiðslu­getu hag­kerf­is­ins.

Skipu­lag verk­taka­fyr­ir­tækja ekki í lagi hér

Aðspurður hvað það sé við skipu­lag á vinnu­stöðum hér sem dragi úr fram­leiðni seg­ir Ævar að það séu nokkr­ir sam­verk­andi hlut­ir sem þar spili inn í. Nefn­ir hann að í Nor­egi eigi fyr­ir­tæki al­mennt meira eigið fé og fjár­magns­kostnaður­inn sé lægri. Vegna þess séu blokk­ir full­kláraðar áður en íbú­um sé hleypt inn í þær. Hér á landi sé það aft­ur á móti lenska að hleypa inn í nokkr­ar íbúðir þótt aðeins hálf blokk­in sé kláruð. Þetta hægi oft á bygg­ing­ar­ferl­inu.

Þá seg­ir Ævar að mik­il starfs­manna­velta vegna djúpra hagsveiflna hér á landi valdi því að mann­skap­ur hverfi oft úr grein­inni, jafn­vel úr landi. Al­mennt megi segja að menn nái upp fram­leiðni með því að vinna sam­an og að vinna leng­ur í grein­inni. Hér hafi aft­ur á móti reglu­lega komið niður­sveifl­ur þar sem óreynd­ustu mönn­un­um er sagt upp og því þurfi að byrja með nýja óreynda menn frá grunni í næstu upp­sveiflu.

48% fleiri vinnu­stund­ir hér á landi á hvern fer­metra

Ævar seg­ir þenn­an mikla mun á fram­leiðni koma sér mikið á óvart. Hann hafi bú­ist við um 15%, en ekki svona gríðarlega mikl­um. Mun­ur­inn sé aft­ur á móti á bil­inu 34,5% til 61% eft­ir því hvaða íbúðastærðir er verið að miða við og er miðgildið 48%. Það þýðir að hér á landi þarf 48% fleiri vinnu­stund­ir á hvern fer­metra en í Nor­egi.

Hann seg­ir að næstu skref séu að þess­ar töl­ur séu tekn­ar áfram og nán­ar sé skoðað ná­kvæm­lega hvað liggi þar á bak við. Seg­ir hann iðnaðar­menn sem hann hafi rætt við hingað til hafa tekið vel í þessa út­tekt hans og að menn viður­kenni þenn­an vanda. Þannig hafi meðal ann­ars iðnaðarfé­lög beðið hann um að fjalla um niður­stöðurn­ar við fé­lags­menn sína til að varpa ljósi á málið.

Heimild: Mbl.is