Home Fréttir Í fréttum Lykil­starfs­menn og Sjávarsýn eignast Kælitækni

Lykil­starfs­menn og Sjávarsýn eignast Kælitækni

72
0
Frá vinstri: Valur Ásberg Valsson framkvæmdastjóri, Elís H. Sigurjónsson tæknistjóri, Hörður Fannar Björgvinsson þjónustustjóri og Elías Halldór Ólafsson fjármálastjóri.

Fjórir lykil­starfs­menn Kælitækni hafa gengið til liðs við fjár­festingafélagið Sjávarsýn ehf. um kaup á félaginu.

Starfs­mennirnir Valur Ás­berg Vals­son fram­kvæmda­stjóri, Elís H. Sigur­jóns­son tækni­stjóri, Hörður Fannar Björg­vins­son þjónustu­stjóri og Elías Halldór Ólafs­son, nýr fjár­mála­stjóri, eignast saman­lagt 65% hlut í Kælitækni, á meðan Sjávarsýn ehf. tekur 35% hlut.

Sjávarsýn er fjár­festingarfélag Bjarna Ár­manns­sonar.

Selj­endur eru Haukur Njáls­son og Er­lendur Hjarta­son sem áttu megin­þorra hluta­fjár fyrir eig­enda­skiptin.

Rekstrar­teymi félagsins verður jafn­framt stærsti eig­andi þess. Nýju eig­endurnir, sem leiða helstu svið fyrir­tækisins, þekkja starf­semina vel og sjá fjölmörg tækifæri til að efla fyrir­tækið enn frekar á þeim sterka grunni sem lagður hefur verið og leiða það inn í nýtt vaxtar­skeið.

„Við viljum þakka fyrri eig­endum fyrir þeirra fram­lag og góða sam­starf. Kælitækni er rót­gróið fyrir­tæki með frábært starfs­fólk og við sjáum mikil tækifæri til að halda áfram að þróa starf­semina á næstu árum,“ segir Valur Ás­berg Vals­son, fram­kvæmda­stjóri og einn nýrra eig­enda Kælitækni.

„Við ætlum að nýta okkur sérþekkingu starfs­fólks og sam­starfsaðila til að styrkja stöðu Kælitækni sem leiðandi fyrir­tæki í kæli- og frysti­lausnum. Við horfum til nýrra tækifæra bæði innan­lands og er­lendis. Við leggjum sér­staka áherslu á sjálf­bærni, nýsköpun og orku­sparandi lausnir sem skapa virði fyrir okkar við­skipta­vini.“

Sam­kvæmt fyrir­tækinu hafa eig­enda­skiptin ekki áhrif á dag­lega starf­semi þó þau skapi rými til að efla sam­starf, deila þekkingu og þróa þjónustu enn frekar.

Ekki var upp­lýst um kaup­verð eða breytingar á stjórn en nýja eig­enda­t­eymið leiðir áfram helstu svið rekstrarins.

Kælitækni er rót­gróið ís­lenskt fyrir­tæki sem sér­hæfir sig í kæli- og frysti­lausnum fyrir at­vinnulíf, m.a. verslanir, hótel, iðnað og sjávarút­veg.

Félagið segist leggja áherslu á orku­sparandi og um­hverfis­vænar lausnir, ásamt áreiðan­leika og þjónustu.

Heimild: Vb.is