
Fjórir lykilstarfsmenn Kælitækni hafa gengið til liðs við fjárfestingafélagið Sjávarsýn ehf. um kaup á félaginu.
Starfsmennirnir Valur Ásberg Valsson framkvæmdastjóri, Elís H. Sigurjónsson tæknistjóri, Hörður Fannar Björgvinsson þjónustustjóri og Elías Halldór Ólafsson, nýr fjármálastjóri, eignast samanlagt 65% hlut í Kælitækni, á meðan Sjávarsýn ehf. tekur 35% hlut.
Sjávarsýn er fjárfestingarfélag Bjarna Ármannssonar.
Seljendur eru Haukur Njálsson og Erlendur Hjartason sem áttu meginþorra hlutafjár fyrir eigendaskiptin.
Rekstrarteymi félagsins verður jafnframt stærsti eigandi þess. Nýju eigendurnir, sem leiða helstu svið fyrirtækisins, þekkja starfsemina vel og sjá fjölmörg tækifæri til að efla fyrirtækið enn frekar á þeim sterka grunni sem lagður hefur verið og leiða það inn í nýtt vaxtarskeið.
„Við viljum þakka fyrri eigendum fyrir þeirra framlag og góða samstarf. Kælitækni er rótgróið fyrirtæki með frábært starfsfólk og við sjáum mikil tækifæri til að halda áfram að þróa starfsemina á næstu árum,“ segir Valur Ásberg Valsson, framkvæmdastjóri og einn nýrra eigenda Kælitækni.
„Við ætlum að nýta okkur sérþekkingu starfsfólks og samstarfsaðila til að styrkja stöðu Kælitækni sem leiðandi fyrirtæki í kæli- og frystilausnum. Við horfum til nýrra tækifæra bæði innanlands og erlendis. Við leggjum sérstaka áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og orkusparandi lausnir sem skapa virði fyrir okkar viðskiptavini.“
Samkvæmt fyrirtækinu hafa eigendaskiptin ekki áhrif á daglega starfsemi þó þau skapi rými til að efla samstarf, deila þekkingu og þróa þjónustu enn frekar.
Ekki var upplýst um kaupverð eða breytingar á stjórn en nýja eigendateymið leiðir áfram helstu svið rekstrarins.
Kælitækni er rótgróið íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í kæli- og frystilausnum fyrir atvinnulíf, m.a. verslanir, hótel, iðnað og sjávarútveg.
Félagið segist leggja áherslu á orkusparandi og umhverfisvænar lausnir, ásamt áreiðanleika og þjónustu.
Heimild: Vb.is