Óvissa er um hvað verður um húsið sem hýsir nú höfuðstöðvar Íslandsbanka við Kirkjusand. Myglusveppur fannst í byggingarefnum en Kjarninn greindi frá þessu í mars. Rannsóknir hafa staðið yfir á húsnæðinu síðan þá og samkvæmt fréttatilkynningu sem bankinn sendi frá sér um helgina kemur fram að fylgst sé vel með loftgæðum í húsinu en ljóst sé að fara þurfi í töluverðar endurbætur á húsnæðinu. Unnið sé með verkfræðistofunni EFLU að rannsóknum ásamt finnska ráðgjafafyrirtækinu Vahanen.
Íslandsbanki hafði stefnt að því að stækka aðalhöfuðstöðvar sínar á Kirkjusandi með viðbyggingu við suðurvesturenda þeirrar byggingar sem fyrir er. Samhliða ætlaði bankinn sér að sameina starfsemi höfuðstöðva sinna, sem nú eru á fjórum stöðum, á einn stað á Kirkjusandi. Viðbyggingin átti að vera um sjö þúsund fermetrar og áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmdir við hana myndu hefjast í lok síðasta árs.
Edda Hermannsdóttir, samskiptafulltrúi Íslandsbanka, segir að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um Kirkjusandshúsið ennþá. Það verði skoðað á næstunni hversu miklar endurbæturnar verða. Einnig sé í skoðun hver framtíð reitsins við Kirkjusand verður.
Heimild: Kjarninn.is