Home Fréttir Í fréttum Grunur um brot gegn tugum erlendra verkamanna

Grunur um brot gegn tugum erlendra verkamanna

177
0
Mynd: RÚV
Lögregla rannsakar nú hvort hátt í sjötíu erlendir verkamenn nokkurra verktakafyrirtækja, sem grunuð eru um stórfelld skattalagabrot, hafi verið fórnarlömb vinnumansals. Lögreglu grunar að fyrirtækin hafi að minnsta kosti brotið gegn nokkrum tugum þeirra.

Gæsluvarðhald yfir fimm manns, sem grunaðir eru um stórfelld skattsvik og peningaþvætti við rekstur nokkurra verktakafyrirtækja, rennur út á morgun. Héraðssaksóknari fer með rannsókn málsins.  Yfirheyrslur hafa staðið í allan dag, en ekki liggur fyrir hvort krafist verður áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir fimmmenningunum.

<>

Einn þeirra er framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Brotafls, en hann tengist þremur öðrum sambærilegum félögum. Hann var ákærður í mansalsmáli árið 2009, þegar 19 ára litáísk stúlka var flutt nauðug til landsins. Fimm landar hennar hlutu þunga fangelsisdóma, en maðurinn var sýknaður. Mansalsteymi lögreglu höfuðborgarsvæðisins rannsakar nú hvort hátt í sjötíu erlendir verkamenn fyrirtækjanna sem um ræðir, frá Póllandi, Lettlandi og Litháen, hafi verið fórnarlömb vinnumansals.

Kanna stöðu verkamannanna

Snorri Birgisson, forstöðumaður mansalsteymisins, segir að rætt hafi verið við hluta mannanna, til að kanna stöðu þeirra, hvort þeir þekki réttindi sín eða hafi fengið greidd laun. „Að sama skapi höfum við líka verið að skoða aðbúnað þeirra, hvernig þeir hafa búið, og svona heilt yfir líkamlegt ástand líka,“ segir Snorri í samtali við fréttastofu. „Svona fyrst og fremst líka hvort þeir hafi verið beittir hótunum eða blekkingum. Það hefur  í grunninn verið svona rauði þráðurinn í okkar skoðun í þessu máli.“

Verkamönnunum hafði verið komið fyrir í húsnæði víða um borgina, og Snorri segir að á nokkrum stöðum hafi þeir búið við hrörlegar aðstæður. Hann segir grunsemdir lögreglu í dag lúta að því að fyrirtækin hafi að minnsta kosti brotið gegn nokkrum tugum erlendra verkamanna.

„Okkar grunsemdir náttúrulega bara snúa að því að skoða enn frekar hvort það hafi verið brotið á þeim, þá með tilliti til mansalsákvæðisins,“ segir Snorri. „Það er að segja hvort þessir menn hafi í raun verið í nauðungarvinnu hér á landi og þeirri vinnu er ekki lokið, þannig að við ætlum að halda því áfram og sjá svona hvort við finnum eitthvað frekar sem byggir undir okkar grun í því máli.“

Heimild: Rúv.is