Alls voru um 64 prósent nýrra íbúðalána sem tekin voru á árinu 2014 verðtryggð. Það er mikil breyting frá árinu 2013 þegar 38 prósent nýrra íbúðalána voru verðtryggð. Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika sem birt var á miðvikudag.
Alls nam fjárhæð nýrra íbúðalána á síðasta ári 123,3 milljörðum króna. Þegar úið var að taka tillit til uppgreiðslna á lánum nam hrein fjárhæð þeirra 42,8 milljörðum króna. Báðar tölurnar eru nánast þær sömu og þær voru árið 2013.
Í skýrslunni segir að raunvextir verðtryggra lána hafi framan af ári verið lægri en á óverðtryggðum lánum. Það geti að einhverju leyti skýrt aukna eftirspurn eftir verðtryggðum lánum. „Hins vegar hefur dregið saman með raunvöxtum verðtryggðra og óverðtryggðra lána á síðustu mánuðum en ekki er að sjá að það hafi slegið á eftirspurn eftir verðtryggðum lánum.
Auk þess hefur fasteignaverð hækkað meira en laun og ráðstöfunartekjur síðustu misseri og þar sem greiðslubyrði verðtryggðra lána er lægri í upphafi lánstímans sækja einstaklingar í verðtryggð lán.“
Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að vægi 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána hafi aukist og sagt að það geti verið leið heimila til að mæta hækkun fasteignaverðs. Einnig sé líklegt að auknar vinsældir 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána hafi stuðlað að hækkun fasteignaverðs þar sem svigrúm til lántöku verður meira með slíkum lánum.
Framsókn ætlaði að afnema verðtryggingu
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2013 (kom skýrt fram að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sagði: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána. Skipaður verði starfshópur sérfræðinga til að undirbúa breytingar á stjórn efnahagsmála samhliða afnámi verðtryggingarinnar, meðal annars til að tryggja hagsmuni lánþega gagnvart of miklum sveiflum á vaxtastigi óverðtryggðra lána. Starfshópurinn skili niðurstöðum fyrir árslok 2013.“
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var fjallað nokkuð mikið um verðtryggingu. Þar kom meðal annars fram að leiðrétta ætti verðtryggð lán sem hefðu orðið fyrir verðbólguskoti og að samhliða þeirri skuldaleiðréttingu ætti að „breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð“.
Starfhópur um afnám verðtryggingu skilaði af sér í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að afnema verðtryggingu.
Vilja banna vinsælustu lánin
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við Fréttablaðið á miðvikudag að ekki standi til að afnema verðtrygginga. Þess í stað skoði ríkisstjórnin að lengja lágmarkstíma verðtryggra lána í tíu ár og stytta hámarkstíma þeirra úr 40 árum í 25 ár. Unnið sé að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og mögulegt er að það verði lagt fram á haustþingi.
Samkvæmt skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika eru verðtryggð lán til 40 ára, sem ríkisstjórnin vill banna, þau lán sem eiga mestri vinsældaraukningu að fagna á meðal íslenskra íbúðaeigenda.
Alls eru verðtryggð húsnæðislán Íslendinga um 1.200 milljarðar króna. Í lok síðasta árs hóf ríkisstjórnin að greiða hluta þeirra Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 um 80 milljarða króna úr ríkissjóði vegna verðbólgu þeirra ára.
Heimild: Kjarninn.is