Home Fréttir Í fréttum Ólöf Nordal beitir sér gegn framkvæmdum á Hlíðarenda

Ólöf Nordal beitir sér gegn framkvæmdum á Hlíðarenda

106
0

Innanríkisráðuneytið sendi bréf á Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, fyrir viku síðan þar sem það lýsir þeirri afstöðu sinni að það hafi verið „með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir“ á svæði Valsmanna við Hlíðarenda.

<>

Ástæðan er sú að framkvæmdirnar, sem séu undanfari frekari uppbyggingar og byggingaframkvæmda í Vatnsmýrinni, geti ekki átt sér stað nema að skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar, sem heyra undir innanríkisráðuneytið, sé breytt. Undir bréfið skrifa Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu.

Þarf að loka neyðarbrautinni
Til stendur að reisa á bilinu 800 til 850 íbúðir á Hlíðarendasvæðinu. Framkvæmdirnar eru hluti af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og búið er að samþykkja breytingar á deiliskipulagi þannig að þær geti hafist. Framkvæmdirnar hafa í för með sér að minnsta flugbraut Reykjavíkurflugvallar, sem stundum er kölluð neyðarbraut, verður ónothæf, en hún hefur hvorki verið á deili- né aðalskipulagi frá árinu 2007.

Í febrúar samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samkomulag við Valsmenn ehf. um uppbyggingu íbúðalóða á þeim hluta Hlíðarendasvæðisins sem liggur að umræddri flugbraut.

Í síðustu viku hófust loks framkvæmdir við framkvæmdarveg sem þarf að að leggja milli íþrótta- og byggingasvæðisins. Það hefur vakið mikla reiði hjá mörgum andstæðingum þess að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Stuðningsmannasamtökin Hjartað í Vatnsmýrinni skoruðu til að mynda á Alþingi og innanríkisráðherra að stöðva framkvæmdirnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr í þessum mánuði að öllum mætti vera ljóst „að grípa þarf til varna fyrir Reykjavíkurflugvöll og koma í veg fyrir að borgaryfirvöld grafi stöðugt undan flugvellinum og beiti brögðum til að losna við hann.“

Vísað í skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar
Þann 17. apríl síðastliðinn sendi innanríkisráðuneytið bréf til borgarstjóra Reykjavíkur í tilefni af leyfi sem Reykjavíkurborg veitti til framkvæmda á svæði Valsmanna við Hlíðarenda. Í bréfinu stendur:

„Ljóst er að framangreindar framkvæmdir, sem framkvæmdaraðili hefur nú byrjað, eru undanfari frekari uppbyggingar og byggingaframkvæmda á svæðinu sem ekki getur orðið af að óbreyttum skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar.“

Umræddar skipulagsreglur voru settar þegar Kristján L. Möller var samgönguráðherra, í ágúst 2009. Þær voru settar samkvæmt loftferðalögum frá árinu 1998, en fram til ársins 2009 höfðu reglur af þessu tagi aldrei verið settar.

Reykjavíkurborg gerði athugasemdir við tímasetningu reglnanna, og taldi að skipulagsreglur af þessu tagi ættu að koma í kjölfar endurskoðunar á deiliskipulagi flugvallarins, sem væri gert á grundvelli aðalskipulags. Því taldi borgin að fresta hefði átt gildistöku reglnanna þangað til endurskoðun aðalskipulags og deiliskipulags hefði átt sér stað.

Þessu sögðust samgönguyfirvöld ekki vera sammála, reglurnar tækju mið af gildandi deiluskipulagi. Hins vegar sögðu þau í umsögn um athugasemd borgarinnar: „Samgönguyfirvöld hafa ekki skipulagsvald á svæðinu og því er ljóst að komi til breytinga á aðalskipulagi eða deiliskipulagi vallarins þarf að endurskoða reglurnar en slíkt er einfalt mál.“ Í reglunum sé vísað til þess að þær taki mið af gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi vallarins.

Ótímabært að gefa út leyfi og hefja framkvæmdir
Í bréfi innanríkisráðuneytisins segir einnig að Samgöngustofa hafi til umfjöllunar möguleg áhrif lokun neyðarbrautarinnar og að Rögnunefndin svokallaða, sem kannar mögulega flugvallarkosti, hafi ekki lokið störfum. „Á meðan að niðurstöður nefndarinnar liggja ekki fyrir og ekki hafa verið teknar ákvarðanir á grundvelli tillagna hennar verður flugbraut 06/24 [svokölluð neyðarbraut] ekki lokað eða aðrar ákvarðanir teknar sem leiða til þess að flugbrautin verði tekin úr notkun.

Í ljósi framangreindra atrið var með öllu ótímabært að gefa út framkvæmdaleyfi og hefja framkvæmdir á þeim grundvelli. Ráðuneytið skorar á Reykjavíkurborg að virða gildandi skipulagsreglur og þá stjórnsýslumeðferð sem er í gangi fyrir Samgöngustöfu.“

Undir bréfið skrifa, líkt og áður sagði, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og ráðuneytisstjórinn Ragnhildur Hjaltadóttir.

Bréfið í heild sinni.Bref innanrikisraduneyti

Heimild: Kjarninn.is