Seljalandsfoss dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna og voru þeir ríflega fjögur hundruð þúsund þegar það var mælt 2014. Margir ganga frá Seljalandsfossi í norður að Gljúfrabúa. Salernisaðstaðan á staðnum annar ekki þessum mikla fjölda og núna eru áform um úrbætur.
Sveitarfélagið hefur gert deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir að byggð verði þjónustumiðstöðin, miðja vegu milli fossins Gljúfrabúa og Seljalandsfoss. Samkvæmt deiliskipulagi gæti þjónustumiðstöðin orðið allt að 2000 fermetrar að stærð og 7 metra há. Fjórar jarðir eiga Seljalandsfoss og fyrirhuguð staðsetning þjónustumiðstöðvarinnar leggst illa í eigendur einnar jarðarinnar.
„Þetta svæði hér sem er nátturulega einstakt, einstaklega fallegt, einstök landslagsheild, hefur fengið að vera ósnortið. Þetta er okkar mesta dýrmæti að hafa svona ósnortið land,“ segir Guðrún Ingibjörg Hálfdanardóttir, einn af landeigendum Ytra-Seljalands.
Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og hamrarnir milli þeirra eru á náttúruminjaskrá og því þarf umsögn Umhverfisstofnunar auk Skipulagsstofnunar um áformin. Sigríður hefur látið vinna myndband sem ætlað er að sýna sjónræn áhrif fyrirhugaðrar þjónustumiðstöðvar en rétt er að geta þess að ekki hefur verið ákveðið hvernig útlit byggingarinnar verður. „Verði þessi þjónustumiðstöð sett þarna þá gerist það nákvæmlega þannig að þegar keyrður verður Þórsmerkurvegur eða Suðurlandsvegur þá skyggir þessi risavaxna bygging á fossinn og stór bílastæði mikið af bílum, rútur, umferð fram og til baka, þetta verður allt annað,“ segir Guðrún.
„Það er alltaf dálítið erfitt með deiliskipulög, það er erfitt þegar margir eru að velta þessum hlutum fyrir sér en það er alveg ljóst að meirihluti landeigenda er með því að gera þetta með þessum hætti. Það er líka alveg ljóst að við munum gera miklar kröfur þegar kemur að þjónustumiðstöð og þess háttar um útlit. Þannig að það er hægt að stoppa af einhverjar byggingar sem skipulagsnefnd eða sveitarstjórn líst ekki á,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Guðrún og meðeigendur hennar á Ytra-Seljalandi hafa lagt til að þjónustumiðstöðin verði byggð á þeirra landi. „Við höfum bent á svæði hér undir svonefndu Brekkuhorni, sem kemur alveg til greina, þá er ekki verið að spilla sýn að fossi,“ segir Guðrún. Landið sem um ræðir er sunnar en áformað er að byggt verði á og nær Suðurlandsvegi. En snýst þetta ekkert um það að þið viljið fá eitthvað inn á ykkar land, einhverja byggingu, þar sem þið mynduð fá meiri tekjur af en þar sem sveitarfélagið áformar núna? „Nei, þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að náttúran njóti vafans,“ segir Guðrún.
Ísólfur Gylfi segir brýnt að hafa miðstöðin þannig að hún nýtist bæði gestum að Gljúfrabúa og Seljalandsfossi. Stofnað verði rekstrarfélag um þjónustumiðstöðina og að sveitarfélagið standi ekki straum af kostnaði við uppbygginguna.
Heimild: Ruv.is