Home Fréttir Í fréttum Breikkun Suðurlandsvegar gæti hafist í haust

Breikkun Suðurlandsvegar gæti hafist í haust

180
0
Nýja Ölfusár­brúin

Bæjarráð Árborgar tók fyrir á fundi sínum í vikunni tvö bréf frá Vegagerðinni þar sem tilkynnt er um áform þess efnis að brekka Suðurlandsveg frá Hveragerði að Selfossi.

<>

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í haust ef öll leyfi liggja fyrir og að þeim ljúki árið 2021. Rúmir 304 þúsund fermetrar fara undir framkvæmdina og þarf Vegagerðin að greiða landbætur fyrir 294 þúsund fermetra þar sem rúmlega 10 þúsund fermetrum verður skilað aftur til landeigenda.

Í bréfunum kemur fram að gert sé ráð fyrir að lagður verði 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum með vegriði í miðdeili. Öll undirbygging verður hins vegar byggð sem 2+2 veg strax og allar breiddir og rými gera ráð fyrir breikkun í slíkan veg. Þá verður einnig rými fyrir mislæg gatnamót.

Breikkunin verður á 12 kílómetra kafla og byrjar frá Kambarótum. Auk þess verða lagðir um 9 kílómetrar af nýjum hliðarvegum og tengingum. Fjögur ný vegamót líta dagsins ljós og þá verða byggðar 13 nýjar brýr og undirgöng, meðal annars reiðgöng.

Vegagerðin þarf að gera sérstakan samning við Golfklúbb Selfoss fyrir röskun á golfbrautum og fjarlægja að hluta eða algjörlega 187 fermetra mannvirki á Hellislandi en fasteignamat hússins er 14,4 milljónir.

Vegagerðin segir að af umferðaröryggisástæðum sé ekki hægt að breyta hönnun vegarins né láta húsið standa áfram á þeim stað sem það er nú Þá kemur fram að framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa áhrif á hagsmuni Skógræktarfélags Selfoss vegna skógræktar í Hellisskógi. Félaginu var því sent afrit af bréfinu.

Þá verður ráðist í byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá en hún mun liggja þvert yfir Efri-Laugardælaeyju og að nýr Hringvegur verði lagður frá Biskupsstungnabraut og austur fyrir Selfoss um hina nýja brú eftir því sem fé er veitt til framkvæmdarinnar á fjárlögum.

Nýja brúin verður 330 metra löng stagbrú með um 60 metra háum turni á eyjunni. Göngu-og hjólastígar liggja samsíða akbrautinni. Vegagerðin tekur þó sérstaklega fram að ekki sé gert ráð fyrir að almenningur eigi aðgang að eyjunni af brúnni.

Bæjarráð Árborgar ákvað að fela bæjarstjóra Árborgar að hefja samningaviðræður við Vegagerðina.

Heimild: Ruv.is