Félagið M3 fasteignaþróun ehf. tekur fyrstu skóflustungu að uppbyggingu 177 íbúða við Hlésgötu 1 við Vesturhöfn i dag kl. 11:30.
Fyrsta skóflustungan að Hlésgötu 1 við Vesturhöfn verður tekin á morgun klukkan 11:30 við vinnubúðir sem eru á byggingarreitnum að Hlésgötu. Um er að ræða upphaf framkvæmda á 177 íbúðum við gömlu höfnina í miðbæ Reykjavíkur.
Félagið M3 fasteignaþróun ehf. fer fyrir verkinu en tilboð félagsins var samþykkt af borgarráði í byrjun október í fyrra. Reykjavíkurborg hafði þá rift samningi við fyrri lóðarhafa sem sátu aðgerðarlausir í sjö ár.
Byggingarreiturinn var seldur á rúmlega 2,8 milljarða og voru álögð gatnagerðargjöld um 330 milljónir. Greiðslur til Reykjavíkurborgar námu því um 3,2 milljörðum króna.
Örn V. Kjartansson, framkvæmdastjóri M3 fasteignaþróunar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að undanfarin ár hafi reynst heilmikið ferðalag og segir það ágætt að geta loks hafið framkvæmdir.
„Við byrjum á Hlésgötu 1 en sá reitur mun hýsa 110 íbúðir og svo verður seinni reiturinn við hliðina á með 67 íbúðir. Við áætlum svo að geta afhent fyrstu íbúðirnar eftir 2-3 ár og verður þetta um fjögurra ára verkefni ef allt gengur vel.“
Íbúðirnar við Vesturhöfn, oft kölluð Vesturbugt, verða í fjölbreyttum stærðum en M3 mun meðal annars byggja fjölskylduíbúðir fyrir stúdenta og félagsíbúðir sem verða staðsettar í sérhúsi samkvæmt skilmálum.
„Það verða líka almennar leiguíbúðir en neðst við höfnina verða líka skemmtilegar hafnaíbúðir sem verða allt frá 50-60 fermetrum og upp í yfir 200 fermetra,“ segir Örn og bætir við að bílastæðakjallari verði einnig til staðar fyrir markaðsíbúðir ásamt bílskúrum fyrir valdar íbúðir.
Heimild: Vb.is