Allt að 250 milljóna tjón varð hjá köfunarþjónustu sem missti nánast allan búnað í eldsvoða í liðinni viku. Líklega kviknaði út frá rafhlaupahjóli í hleðslu. Eigandinn vonar að það verði víti til varnaðar fyrir aðra.
Mikil vinna er fyrir höndum hjá starfsfólki Köfunarþjónustu Sigurðar. Fyrirtækið missti nánast allan sinn búnað í eldsvoða aðfaranótt miðvikudags. Þau reyna að bjarga því sem bjargað verður, úr sót og brunaleifum.
Í húsinu var sérhæfður köfunarbúnaður sem eigandinn hefur safnað í nærri þrjá áratugi.
„Það er mikill missir, mikill búnaður sem við höfum misst,“ segir Sigurður Örn Stefánsson, eigandi Köfunarþjónustu Sigurðar.

– Kristinn Þeyr Magnússon
Sex starfa hjá fyrirtækinu. Á lager þess voru til dæmis alls konar neðansjávarverkfæri.
„Stór hluti af þeim búnaði slapp hjá okkur sem betur fer, en allt sem heitir björgunarbúnaður, til að bjarga skipum sem stranda og sökkva, það að stórum hluta fór hjá okkur og við þurfum að fara og byrgja okkur upp aftur. Það mun taka svolítinn tíma og verða erfitt verkefni,“ segir hann.

– Kristinn Þeyr Magnússon
Til dæmis eyðilögðust svokallaðir lyftibelgir til að bjarga búnaði af hafsbotni.
„Og eru notaðir mjög reglulega. Hver og einn poki lyftir fimm tonnum. Þarna er ég með 14 poka og verðmætið er gríðarlegt í hverjum og einum poka, það er talið í 100 þúsund.“
Hús fyrirtækisins er tryggt en aðeins hluti af búnaðinum. „Ég er nú ekki búinn að taka þetta allt saman, bara á því að horfa í hillurnar hérna hjá mér sé ég 150-250 milljónir farnar, bara auðveldlega.“
Hvað mikið af því er tryggt? „Ég er að áætla að þetta sé á milli 20-30 milljónir sem ég fæ til baka. Það er erfitt að tryggja búnað sem þú geymir jafnvel í 5-10 ár á milli verkefna og er mjög sérhæfður, það er mjög erfitt að tryggja slíkan búnað að ég tel. ))
Eldsupptök eru til rannsóknar en líkur leiða að rafmagnshlaupahjóli sem var í hleðslu í viðbyggingu.
„Ég vil að það sé víti til varnaðar fyrir alla aðra að taka hjólin úr sambandi yfir nótt. Það er það sem ég hef lært af þessu, að hlaða ekki rafmagnshlaupahjól yfir nótt. Það sést svo vel hérna hvað þetta getur orsakað og það er ömurlegt bara, hreinlega ömurlegt.“

– Kristinn Þeyr Magnússon
Fyrirtækið hefur fengið hjálp úr óvæntri átt, frá hörðustu samkeppnisaðilum þeirra, sem hafa lánað þeim búnað. Sigurður er ákveðinn í að byggja fyrirtækið upp aftur.
„Við ætlum að reyna að halda áfram og vonum að það gangi vel. Ég ætla að vera fullur bjartsýni þangað til annað kemur í ljós. Það er mikið í húfi. Þetta eru dauðir hlutir og þetta eru lífsviðurværi margra manna. Þetta hefur mikil áhrif en þú kemst svo langt á jákvæðinni.“
Heimild: Ruv.is