
Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða, segir frá fyrirhugaðri byggingu húss í Vatnsmýri sem hýsir stofnunina sem kennd er við hann. Ráðstefnan Hringborð Norðurslóða var haldin í þrettánda sinn í síðustu viku.
„Þetta er bara allt á góðu róli. Það að vísu tók dálítið langan tíma að ganga frá deiliskipulagi á lóðinni en það leystist svo á farsælan hátt. Þannig að núna eru fulltrúar stofnunarinnar í samræðum við bæði háskólasamfélagið hér og ýmsa erlenda aðila og móta reglurnar um starfsemina í þessari nýju alþjóðlegu miðstöð.
Vegna þess að ég taldi mikilvægt að þær reglur væru skýrar áður en það væri hafist handa við bygginguna sjálfa,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða eða Arctic Circle, í viðtali við fréttaskýringaþáttinn Þetta helst.
En ef okkur tekst að búa til bækistöð sem bæði þjónar Íslandi og eflir alþjóðlegt samstarf um þessi brýnu mál, framtíð jarðar, þá held ég að það skipti ekki höfuðmáli hvort þetta er einu ári fyrr eða síðar.
Hann talar þarna um byggingu sem til stendur að reisa í Vatnsmýrinni við hlið náttúrufræðihússins Öskju, gegnt höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar og hugmyndahúsinu Grósku.
Vinnuheiti hússins er Norðurslóð, hús stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar. Húsið á að vera á bilinu 20 til 30 þúsund fermetrar og á að kosta á bilinu 14 til 21 milljarð króna. Deiliskipulagi Vatnsmýrarinnar var breytt árið 2023 og byggingunni mörkuð lóð.
Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar hefur síðustu 13 ár haldið Arctic Circle-ráðstefnuna í Hörpu. Ef af byggingu hússins verður, sem Ólafur Ragnar reiknar með, þá verður ráðstefnan komin með eins konar höfuðstöðvar í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ráðstefnan í ár var haldin frá miðvikudegi í síðustu viku og fram á laugardag.

– Aðsend
Ólafur Ragnar er í viðtali við Þetta helst um ráðstefnuna í Hörpu sem lauk um helgina og byggingu nýja hússins.
Hann vonast til þess að starfsemin í húsinu verði bækistöð fyrir umræðu um brýn mál eins og framtíð jarðarinnar. „En ef okkur tekst að búa til bækistöð sem bæði þjónar Íslandi og eflir alþjóðlegt samstarf um þessi brýnu mál, framtíð jarðar, þá held ég að það skipti ekki höfuðmáli hvort þetta er einu ári fyrr eða síðar.
Aðalatriðið er að það takist að styrkja þannig þennan nýja sess Íslands að vera eins konar griðastaður þar sem veröldin getur komið saman og rætt óhikað og opið um þessi stóru brýnu vandamál sem í dag – því miður – eiga sér hvergi griðastað þar sem árangursrík samræða fer fram,“ segir Ólafur Ragnar.
Kynningarbæklingur var gefinn út um húsið í Vatnsmýrinni árið 2022. Bæklinginn má nálgast hér.
Heimild: Ruv.is