Starfshópur, sem skipaður var til að meta kosti til framtíðar fyrir íþróttahús á Eskifirði, leggur til að byggt verði nýtt íþróttahús við hlið sundlaugarinnar. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á næsta ári.
Íþróttahúsið á Eskifirði hefur verið lokað síðan árið 2023 vegna myglu og rakaskemmda. Starfshópurinn var skipaður í sumar, með fulltrúum Fjarðabyggðar, Ungmennafélagsins Austra og íbúasamtaka, til að meta kosti til framtíðar í íþróttahússmálum, hvort rétt væri að gera við húsið eða byggja nýtt og þá hvar.
Fjarðabyggð gerði í fyrra kostnaðarmat fyrir lagfæringar á húsinu sem hljóðaði upp á 200 milljónir króna. Starfshópurinn varar við að endurbygging á húsinu sé ekki annað en dýr skammtímalausn sem seinki nauðsynlegri uppbyggingu. Húsið sé illa farið og þótt það takist að gera við það versta sé óvissa til framtíðar um hvað fleira þurfi að gera.
Hópurinn bendir einnig á að ekki sé hægt að bæta áhorfendaaðstöðuna eins og þyrfti því stúkurnar séu hluti af burðarvirkinu. Húsið er hins vegar vel staðsett fyrir íþróttakennslu við hliðina á grunnskólanum.

Næsti kostur sem hópurinn skoðaði var að byggja nýtt hús á sama stað. Það gæti orðið allt að 900 fermetrar að stærð. Með því fengist bæði nálægð við skólann og helstu kröfur nútímans yrðu uppfylltar.
Gallinn er hins vegar að frekari stækkunarmöguleikar þar eru takmarkaðir. Hópurinn telur því að þarna sé aðeins um að ræða aðra skammtímalausn sem leggi ekki grunn að framtíðarþróun íþróttaaðstöðu á Eskifirði.
Tækifæri í samlegð með sundlauginni
Þriðji kosturinn sem starfshópurinn skoðaði var að byggja íþróttahús frá grunni við hlið sundlaugarinnar, innst í Eskifirði. Helsti gallinn er að hún er nokkuð frá skólanum en á móti er talið tækifæri í að búa til samfellt íþróttasvæði sem nýtist fyrir skólann, félagasamtök og almenning. Ná megi fram hagkvæmni með samnýtingu starfsfólks, búnaðar og orku.
Á tíma tíma er talið að þetta skapi tækifæri til að skipuleggja skólalóðina á Eskifirði betur. Ljóst sé þó að ekki verði ráðist í lóðina fyrr en íþróttahúsið er tilbúið vegna kostnaðar.

Vilja taka grunninn á næsta ári
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, segir að næsta skref sé að hanna væntanlegt íþróttahús og ganga frá skipulagi svæðisins. Á næstu vikum verður fjárhagsáætlun næsta árs kláruð og markmiðið er að koma íþróttahúsinu inn á hana, að minnsta kosti þannig að hægt verði að byrja jarðvinnu á næsta ári.
Tillaga hópsins hefur ekki verið kostnaðarmetin. Tveir áhugasamir byggingaraðilar hafa þegar sett sig í samband við sveitarfélagið. Ragnar segir að framundan sé frekari greiningarvinna á hvað þurfi að vera til staðar í húsinu en næst á dagskrá starfshópsins er að fá skólastjórnendur á sinn fund.
Heimild: Austurfrett.is