
Framkvæmdasýslan – ríkiseignir, rifti síðastliðinn föstudag verksamningi við verktakafyrirtækið Húsheild ehf. um byggingu hjúkrunarheimilis að Höfn í Hornafirði, og er riftunin sögð byggja á skýrum vanefndum verktaka.
Húsheild ehf. segir að Framkvæmdasýslan hafi með háttalagi sínu siglt verkinu í strand og hyggst félagið leita réttar síns eftir riftunina.
Í stuttri tilkynningu Framkvæmdasýslunnar segir að verksamningi við Húsheild hafi verið rift á föstudaginn.
„FSRE fylgir lögum og reglum um verksamninga, riftunin byggir á skýrum vanefndum verktaka og markmiðið er að tryggja áframhaldandi framgang verkefnisins og byggja glæsilegt hjúkrunarheimili fyrir samfélagið í Hornafirði,“ segir í tilkynningunni.
Vísa málinu til dómstóla ef þörf krefur
Í tilkynningu frá Húsheild ehf., segir að umgjörð verksins af hálfu Framkvæmdasýslunnar hafi frá upphafi verið með miklum eindæmum.
„Hönnunargögn voru ófullnægjandi og ókláruð þegar verk var boðið út og hefur það hamlað framgangi verksins frá upphafi. Nú, þremur árum síðar, eru hönnunargögn enn ófullnægjandi.“
„Það er frumskylda verkkaupa að leggja til fullnægjandi gögn. Verkið hefur tafist mjög vegna þessa alls og verkkaupi hefur brugðist við með því að draga háar tafabætur af greiðslum og hóta riftun.“
„Framkvæmdasýslan og starfsmenn hennar hafa með háttalagi sínu og framkomu siglt verkinu í strand og reyna nú að klóra yfir eigin mistök með því að rifta verksamningi. Húsheild mun leita réttar síns og verður málinu vísað til dómstóla ef þörf krefur,“ segir í tilkynningu Húsheildar.
Framkvæmdir tafist og kostnaður fram úr áætlun
Fyrsta skóflustungan var tekin að nýju hjúkrunarheimili á Höfn í september 2022, og var þá áætlað að húsnæðið yrði tekið í notkun 2024.
Í nóvember 2024 var fjallað um það á vettvangi Ríkisútvarpsins að framkvæmdir við hjúkrunarheimilið væru komnar 700 milljónum fram úr áætlun.
Miklar tafir hefðu orðið á verkinu vegna þess hve hönnun hússins væri flókin og teikningar hefðu ekki verið tilbúnar þegar framkvæmdir hófust.
Heimild: Visir.is