
Verkís bað Borgarbyggð afsökunar og endurgreiddi þóknun vegna undirbúnings niðurrifs gamals sláturhúss. Vanáætlun um efnismagn varð til þess að kostnaður við verkið fór 100 milljónir fram úr áætlun.
Kostnaður við niðurrif gamla sláturhússins í Brákarey í Borgarnesi reyndist fimmfalt meiri en lægsta tilboð í verkið. Skessuhorn greindi fyrst frá. Verkís endurgreiðir Borgarbyggð kostnað vegna ráðgjafar um efnismagn.
Í sumar var ráðist í niðurrif gamla sláturhússins í Brákarey í Borgarnesi. Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, segir húsið hafa verið orðið hættulegt og að hruni komið.
Húsið orðið hættulegt
„Við vissum til þess að það voru mannaferðir í húsinu og útlit fyrir að fólk væri jafnvel að hafast þar við næturlangt og þess háttar,“ segir Stefán Broddi. Það hafi því verið orðið brýnt að rífa húsið.
Rífa átti húsið í þremur áföngum. Byrjað var á þeim stærsta. Stefán segir sveitarfélagið hafa ákveðið að fá faglega ráðgjöf í að vinna útboðsgögn og áætla það magn efnis í húsinu sem þyrfti að rífa og farga.
Áætlun Verkís stóðst ekki
Verkís vann niðurrifsáætlun og útboðsgögn. Þegar framkvæmdir hófust varð ljóst að áætlunin um magn efnis stóðst ekki. Mun meira reyndist af efni sem þurfti að farga.
„Við höfum auðvitað átt má segja bara afskaplega hreinskilin samskipti við okkar ráðgjafa hvað það varðar. Í minnisblaði Verkís til sveitarfélagsins: „ Verkís hf. vill með minnisblaði þessu koma fram afsökunarbeiðni sinni til Borgarbyggðar vegna þess fráviks sem varð. Fyrirtækið vill einnig koma á framfæri að um leið og mistökin urðu ljós þá hafði það frumkvæði að því að þóknun sem greidd hafði verið vegna magntökunnar yrði endurgreidd, um miðjan júlí síðastliðinn. Um er að ræða reikning nr. 191692 að upphæð 850.000kr. með vsk.“
Sveitarfélagið hafði gert ráð fyrir að kostnaði upp á 130-150 milljónir en tók tilboði upp á rúmar 50 milljónir. Þegar upp var staðið greiddi sveitarfélagið 250 milljónir fyrir verkið.
Ekki áhrif á framkvæmdir í sveitarfélaginu
Fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins hljóðar upp á tæpa tvo milljarða, við gatnagerð og framkvæmdir við grunnskóla og íþróttahús. Stefán Broddi segir umframkostnað við niðurrif ekki hafa teljandi áhrif á rekstur sveitarfélagsins.
„Þessir stóru póstar eru allir svona nokkurn veginn á áætlun þannig að það breytir ekki fjárfestingaráætlun okkar svo neinu nemur,“ segir Stefán.
Hann bendir á að sveitarfélagið líti á nauðsynlegar framkvæmdir í Brákarey sem fjárfestingu því talsverð uppbygging er fyrirhuguð í eyjunni á næstu árum. „Við vinnum hana til baka með uppbyggingu í Brákarey, gegnum rekstur, atvinnulíf og íbúabyggð sem þar verður,“ segir Stefán.
Unnið er að deiliskipulagi sem kynnt verður í vetur. Í framhaldinu verður ákveðið hvernig öðrum og þriðja áfanga í niðurrifi gamla sláturhússins verður háttað.
Heimild: Ruv.is