Home Fréttir Í fréttum Uppfærður kostnaður eftir að leið hefur verið valin

Uppfærður kostnaður eftir að leið hefur verið valin

23
0
Horft til norðausturs frá Gufunesi yfir Eiðsvík að Geldinganesi. Ásýnd með tilkomu Sundabrautar. Teikning/Efla

Uppfærð kostnaðaráætlun vegna Sundabrautar mun fyrst liggja fyrir þegar ákvörðun hefur verið tekin um hvaða valkostur verður fyrir valinu og frekari vinna hefur átt sér stað varðandi greiningu og forvinnu við þann valkost.

Hins vegar er ljóst að heildarumfang verkefnisins mun nema á annað hundrað milljörðum króna og að Sundagöng verða um 10-25 milljörðum dýrari en brúarlausn.

Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. Tilefnið eru ummæli Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, í frétt mbl.is fyrr í dag. Þar vakti hann athygli á því að uppfærð kostnaðaráætlun lægi ekki frammi fyrir hvoruga leiðina, en nýjustu tölur eru frá árinu 2021.

Horft til vesturs frá Gufuneshöfða, yfir Kleppsvík. Horft er til mismunandi leiða til að komast yfir Kleppsvíkina. Hér er sýnd lágbrú, en einnig kemur hábrú til greina og jarðgöng. Teikning/Efla

Verk upp á á annað hundrað milljarða
G. Pétur segir að fyrst þurfi að ákveða hvaða valkostur verði fyrir valinu. Í kjölfarið taki við frumvinna að drögum fyrir framkvæmdina. Við þá vinnu verði til kostnaðaráætlun með talsvert mikilli óvissu. Svo taki við frumdrög, forhönnun og verkhönnun, en áætlunin verði á hverju skrefi nákvæmari.

Hann tekur fram að Vegagerðin hafi talað um að verkefnið sé samtals á annað hundrað milljarða og að göng muni kosta 10 til 25 milljörðum meira en brúarlausnin.

Í fyrri frétt var rifjað upp að kostnaðaráætlun vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hefði á síðasta ári verið uppfærð eftir nánari greiningu og vinnu. Kom þá í ljós að kostnaðaráætlunin var upp á 311 milljarða en ekki 170 milljarða. Nemur það 83% hækkun. Tók Dagur undir áhyggjur vegna þessa og sagði að enn væri óljóst hvað Sundabrautin muni kosta.

Spurður hvort hann gerði ráð fyrir miklum hækkunum með uppfærðu mati svaraði hann því játandi. „Jú, í mínum huga er það alveg skýrt, en hversu mikið veit ég ekki.“

Horft til suðvesturs frá Gufunesi. Ásýnd með tilkomu Sundabrautar. Myndin sýnir veglínu samkvæmt gildandi aðalskipulagi frá Gufuneshöfða yfir gamlan urðunarstað í Gufunesi. Í baksýn má sjá hábrú yfir Kleppsvík og til hægri er stóra skemman í Gufunesi. Teikning/Efla

Útboð mögulegt á næsta ári
Í síðustu viku var birt umhverfismat Vegagerðarinnar vegna Sundabrautar og hefur í kjölfarið talsvert verið fjallað um framkvæmdina.

Spurður út í næstu skref og tímaramma segir G. Pétur að í kjölfar kynningar umhverfismatsins í samráðsgátt og yfirferðar á þeim athugasemdum væri hægt að fara í útboð á næsta ári og hefja framkvæmdir árið 2027.

Vegagerðin hafi metið það sem svo að framkvæmdatími gæti tekið um fimm ár.

Horft til suðausturs frá Laugarnesi í um 66 m hæð. Ásýnd með tilkomu Sundabrautar þar sem Sundabraut fer í göng undir Kleppsvík. Teikning/Efla

Ítarlegar rannsóknir fyrirhugaðar á haugunum
Samkvæmt umhverfismatinu er þó ljóst að ráðast þarf í ýmsar rannsóknir áður en tekin er ákvörðun um hvaða valkost á að velja og hefja framkvæmdir. Þar á meðal þarf að huga að öryggi Gufuneshauga, gamalla sorphauga í Gufunesi, en ætlað er að Sundabraut muni fara þar yfir á 900 metra kafla. Hafa verið settar fram áhyggjur af gasmyndun og mögulegri jarðvegsmengun vegna sigs fyllinganna þannig að mengunarefni fari á hreyfingu og skolist út í sjó. Samkvæmt umhverfismatinu eru ítarlegar rannsóknir á þessu fyrirhugaðar. Kemur jafnvel til greina að færa leguna út fyrir haugana.

„Ef niðurstöður rannsókna með tilraunafergingu leiða í ljós að mengunarefni séu líkleg til að losna út í umhverfið koma svokallaðar léttar lausnir til greina fyrir vegbygginguna en þær eru hannaðar til að minnka álag vegarins á undirlag hans. Einnig eru valkostir fyrir legu Sundabrautar í Gufunesi til skoðunar sem liggja utan við haugana. Þannig má koma í veg fyrir mögulega losun á mengunarefnum,“ segir í umhverfismatinu.

Heimild: Mbl.is