Home Fréttir Í fréttum Verslun Bónus á Selfossi stækkar

Verslun Bónus á Selfossi stækkar

52
0
Verslun Bónus á Selfossi mun stækka um 350 fermetra næstu misseri. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hafnar eru framkvæmdir við stækkun Bónus á Selfossi. Verslunin, sem stendur við Larsenstræti 5, mun stækka um 350 fermetra. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki næsta vor.

„Bónus Selfossi stendur frammi fyrir spennandi breytingum á næstu misserum. Framundan eru stækkun og endurbætur á versluninni með það að markmiði að bæta upplifun viðskiptavina og skapa aukið rými fyrir fjölbreyttara vöruúrval,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus, í samtali við sunnlenska.is.

Verslunin mun stækka til suðurs. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Verkefnið miðar að því að bæta flæði í versluninni, gera aðgengi greiðara og bæta verslunarumhverfið þannig að viðskiptavinir geti verslað hratt, þægilega og á sem hagstæðustum kjörum. Með stækkuninni skapast einnig rými fyrir fleiri vörur og betri framsetningu á þeim.“

„Við erum alltaf að leita leiða til að gera búðirnar okkar betri og þægilegri fyrir viðskiptavini. Selfoss er ört vaxandi samfélag og við viljum mæta þeirri þróun með öflugri og nútímalegri verslun.“

Verslun Bónus á Selfossi stendur við Larsenstræti 5. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Verkið er þegar hafið og gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki fyrir vorið. Á meðan á framkvæmdum stendur verður verslunin opin eins og venjulega og leitast verður við að hafa áhrif á daglegt verslunarhald sem minnst,“ segir Björgvin ennfremur.

Heimild: Sunnlenska.is