Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast við Þeistareyki

Framkvæmdir hefjast við Þeistareyki

112
0
Mynd: Landsvirkjun

Framkvæmdir vegna Þeistareykjavirkjunar hefjast á næstu dögum, en skrifað var undir samning við verktakann í dag. Kostnaður vegna fyrsta áfanga virkjunarinnar er á bilinu 20 til 24 milljarðar króna.

<>

Þeistareykjavirkjun hefur verið mörg ár í undirbúningi. Í dag var skrifað undir samning við LNS Sögu um byggingu stöðvarhúss og gufuveitna. Sá samningur er upp á 6,6 milljarða króna, en heildarkostnaður við fyrsta áfanga er 20 til 24 milljarðar. Framkvæmdir hefjast á næstu dögum, en gert er ráð fyrir að virkjunin verði komin í notkun haustið 2017. „Þetta er orka sem er fyrst og fremst hugsuð til að styðja við uppbyggingu á norðausturlandi og þá sérstaklega með iðnaðarsvæðið á Bakka í huga,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Fyrir liggur umhverfismat upp á 200 megawatta virkjun og virkjanaleyfi fyrir 100 megawöttum. Í fyrsta áfanga verður hins vegar farið í 45 megawatta virkjun, en að sögn Harðar var ákveðið að fara í varfærna uppbyggingu. Það liggur þó fyrir áætlun um stækkun. „Ég myndi telja það mjög líklegt að við færum í 90 megawött mjög fljótlega, eða um leið og markaðsaðstæður leyfa það, en það vantar þó frekari rannsóknir áður en við tökum ákvörðun um það.“ Hann segir svæðið viðkvæmt og öflug umhverfisvöktun sé viðhöfð við framkvæmdina.

Gert er ráð fyrir að hátt í 200 starfsmenn muni vinna á svæðinu á meðan á framkvæmdum stendur. Verktakafyrirtækið LNS Saga var stofnað í október 2013. „Þetta er nýtt fyrirtæki, en þetta er dótturfélag norsks verktakafyrirtækis sem er stofnað til að þjónusta íslenskan markað,“ segir Ásgeir Loftsson, framkvæmdastjóri LNS Saga.

Heimild: Rúv.is