Home Fréttir Í fréttum Um 240 milljónir til viðbótar í malbik

Um 240 milljónir til viðbótar í malbik

111
0

Verja á um 240 milljónum króna til viðbótar til viðhalds gatna í Reykjavík í ár miðað við í fyrra.

<>

Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkur, segir það hafa blasað lengi við að meira fé þurfi til endurnýjunar gatnakerfisins. Áætlað er að 13 til 14 þúsund tonn af malbiki fari til gatnaviðhalds og að kostnaðurinn nemi 690 milljónum króna. Kostnaðurinn í fyrra var 458 milljónir króna á núvirði, að sögn Ámunda Brynjólfssonar, skrifstofustjóra framkvæmda og viðhalds.

Reykjavíkurborg hefur ekkert gefið eftir varðandi gæði malbiks sem lagt er á götur borgarinnar. Þetta er mat Bergþóru Kristinsdóttur, verkfræðings hjá Eflu, sem unnið hefur að gatnaviðhaldsmálum. „Í útboðsgögnum hafa menn beðið um og fengið efni af góðum gæðum, samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru á hverjum stað.

Ástandið er fyrst og fremst slæmt vegna veðurfars og þess að of litlu fjármagni hefur verið varið í endurnýjun gatnakerfisins síðustu ár. Þetta er uppsafnaður viðhaldsvandi,“ bendir Bergþóra á.

Spurð hvort það verði ekki ódýrara til lengri tíma litið að nota víðar dýrari tegundir malbiks segir Bergþóra að taka verði tillit til margra þátta við val á slitlagstegund.

„Fram að þessu hafa menn ekki slegið af gæðum við val á slitlagi á götur. Slitlagstegund er valin eftir því hve mikil umferð er á viðkomandi götu. Þannig er t.d. ekki valið að nota þykkt slitlag með dýru steinefni í botngötur í húsahverfum því það skilar sér ekki í betri endingu.

Fjárframlög hafa verið alltof lítil í langan tíma. Það er erfitt að réttlæta það að nota efni sem er til dæmis 30 prósentum dýrara og gera þá við 30 prósentum minna. Þegar svo og svo mikið er ónýtt verður að finna leiðir til að ná að gera við það sem þarf.“

Að sögn verkfræðingsins endist malbik á götum með miklum umferðarþunga í sex til tíu ár en steypa, sem er miklu dýrari, í 30 til 40 ár. Það sé hins vegar erfiðara að steypa götur nema þegar verið er að leggja nýjar. „Götur þurfa að vera lokaðar í nokkra sólarhringa eftir að steypt er.

Í langflestum tilfellum er ekki hægt að loka götum í nokkra daga. Það er til dæmis erfitt að loka miðakrein á Miklubraut til að steypa hana.“

Heimild: Visir.is