Home Fréttir Í fréttum Flutt inn í 15.000 íbúa hverfi

Flutt inn í 15.000 íbúa hverfi

29
0
RÚV – Anna Lilja Þórisdóttir

Á allra næstu dögum verður flutt inn í fyrstu íbúðirnar í nýju 15.000 íbúa hverfi á Ártúnshöfða. Talsvert hefur hægt á sölu nýrra íbúða og verktaki telur skort á bílastæðum í nýjum hverfum eina ástæðuna.

Það er fátt sem bendir til þess núna en þegar hverfið á Ártúnshöfða verður tilbúið á það að verða grænasta hverfi Reykjavíkurborgar. Talsvert verk er enn óunnið við að breyta iðnaðarhverfinu í íbúðahverfi og mörg hundruð manns eru þar að störfum, en þetta verður eitt af lykilhverfum Borgarlínu. Þar verða þrír grunnskólar, nokkrir leikskólar og um 15.000 íbúar.

Hásæti höfuðborgarinnar, stendur á skilti í hverfinu.
RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

„Á öllum svæðinu er gert ráð fyrir 7.000 íbúðum þegar allt er komið,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.

„Í þeim áfanga sem nú er verið að byggja upp verða um 1.500 íbúðir. 686 íbúðir eru í uppbyggingu akkúrat núna.“

Er fólk flutt inn?

„Fólk er búið að fá afhent, þannig að það er að flytja inn um þessar mundir, skilst mér.“

Dóra Björt Guðjónsdóttir er bæjarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar.
RÚV / Bragi Valgeirsson.

Uppsteypa af fullum krafti
„Það er hér uppsteypa af fullum krafti,“ svarar Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verk sem er eitt þeirra fyrirtækja sem byggja í hverfinu.

Fyrirtæki Þorvaldar hyggst einnig byggja neðar á Ártúnshöfðanum. Þau verkefni eru nú í hönnun. „Við vonumst til að geta haldið áfram með uppbyggingu samhliða og í kjölfarið á þessu sem hér er.“

Talsverður hluti þeirra íbúða sem verða byggðar í hverfinu verða litlar – en þær hefur sárlega skort á markaði. Í því ljósi segir Þorvaldur skjóta skökku við að borgin dragi lappirnar við að gera lóðirnar byggingarhæfar. „Það þarf að leggja lagnir, veitulagnir, gera götur og ráðast í viðeigandi framkvæmdir. Svo ég segi eins og það er: ég veit ekki hvenær það verður klárt,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Gissurarson.
RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

Dóra Björt segir að nú sé verið að breyta skipulagsferlum hjá borginni í því skyni að flýta uppbyggingu. Hún talar um umbyltingu á því sviði. „Við erum að gera eina stærstu breytingu sem hefur sést í áratugi,“ segir Dóra Björt.

5.500 íbúðir í byggingu
Um 5.500 íbúðir eru í byggingu um allt land og átta af hverjum tíu þeirra eru í fjölbýlishúsum samkvæmt nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Rífa þarf talsvert af byggingum og mannvirkjum í hverfinu. Meðal annars þessa bragga.
RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

Í síðasta mánuði var einn af hverjum átta kaupsamningum gerður um íbúðir í nýbyggingum. Meiri sveiflur eru í sölu nýrra íbúða en þeirra eldri og nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eru tvöfalt lengur að seljast en þær eldri.

„Nýjar íbúðir eru oft dýrari,“ segir Dóra Björt, spurð hver gæti verið skýringin á þessu.

„Þegar það er verðbólguástand og erfitt að fá lán, þá hefur það áhrif á að dýrari íbúðir seljast hægar.“

Þorvaldur telur að stærsta ástæðan sé ástandið á lánamarkaði. „Hátt vaxtastig og aðgengi fólks að lánsfé til íbúðakaupa.“

Þá telur hann að skortur á bílastæðum í nýjum hverfum hafi talsverð áhrif. „Ég heyri ekki annað frá okkar kaupendum en að þetta fyrirkomulag sé í þeirra óþökk almennt. Sumir eru einfaldlega að bíða eftir valkostum þar sem bílastæði eru ekki vandamál,“ segir Þorvaldur.

Framkvæmdir á Ártúnshöfða – nýju 15.000 íbúa hverfi.
RÚV / Anna Lilja Þórisdóttir

Svara gagnrýni og fjölga stæðum
En – breytinga virðist vera að vænta. „Bílastæðareglur borgarinnar hafa verið gagnrýndar töluvert síðustu misseri þannig að við erum að vinna að endurskoðun þeirra til að rýmka örlítið. Til að mæta þeirri gagnrýni sem hefur komið fram,“ segir Dóra Björt.

Að rýmka – þýðir það að fjölga bílastæðum?

„Að skapa svigrúm þannig að það sé hægt að hafa fleiri bílastæði.“

Heimild: Ruv.is