Home Fréttir Í fréttum Hátt í tvöhundruð manns verða í vinnu á Þeistareykjum í sumar

Hátt í tvöhundruð manns verða í vinnu á Þeistareykjum í sumar

106
0
Þeistareykjavirkjun að vetri. - GRAFÍK/LANDSVIRKJUN.

Hátt í tvöhundruð manns verða í vinnu á Þeistareykjum í sumar en samningar um smíði stöðvarhúss voru undirritaðir í dag. Þetta er fyrsta jarðvarmavirkjun sem Landsvirkjun reisir og jafnframt stærsta virkjun sem byggð hefur verið á Norðurlandi frá því Blönduvirkjun var gangsett fyrir aldarfjórðungi.

<>

Forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, og framkvæmdastjóri verktakans LNS Saga, Ásgeir Loftsson, undirrituðu 6,6 milljarða króna verksamninga um smíði stöðvarhúss og lagningu gufuveitna. Fyrir Landsvirkjun markar þetta tímamót. Þær tvær jarðvarmavirkjanir, sem félagið rekur, við Kröflu og í Bjarnarflagi, voru byggðar af öðrum. Þetta verður því fyrsta jarðvarmavirkjunin sem Landsvirkjun reisir.

Áætlað er að þessi fyrsti áfangi Þeistareykjavirkjunar kosti 20 til 24 milljarða króna en miðað er við 45 megavatta afl. Svo stór virkjun hefur ekki risið á Norðurlandi í aldarfjórðung, eða frá því Blöndvirkjun tók til starfa árið 1991.

„Þetta mun styrkja mjög afhendingu, sérstaklega til stórnotenda, hvort heldur iðnfyrirtækja eða fiskimjölsverksmiðja, á Norðausturlandi,“ segir Hörður í fréttum Stöðvar 2.

Athygli vekur að Landsvirkjun lítur svo á að þessar framkvæmdir séu óháðar því hvort samningar verði kláraðir um smíði kísilvers á Bakka. Virkjunin mun hins vegar styðja við kísilverið en þörf sé fyrir orkuna, óháð því, að sögn Harðar.

Undirbúningsframkvæmdir voru á Þeistareykjum í fyrra en verktakinn LNS Saga gerir ráð fyrir að mæta á svæðið og hefja framkæmdir á næstu vikum. Áætlað er þar verði hátt í 200 manns í vinnu í sumar en stefnt er að því að orkuframleiðslan hefjist haustið 2017.

Heimild: Vísir.is